Home » Spurt og svarað um stjórnarskrána » Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni?

Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni?

Já, ein breyting hefur verið gerð en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi. Vorið 2013 – eftir að þáverandi stjórnarmeirihluti féll frá því að láta reyna á að koma stjórnarskrárfrumvarpi byggðu á frumvarpi Stjórnlagaráðs í gegnum þingið – náðist samkomulag um þá breytingu á stjórnarskránni að næsta kjörtímabil á eftir félli reglan um samþykki tveggja þinga úr gildi. Þess í stað hefði verið hægt að samþykkja breytingu á stjórnarskrá (eða setja nýja stjórnarskrá) með þeim hætti að fyrst samþykkti aukinn meirihluti þings breytingarnar (⅔ hlutar þingmanna) og því næst kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem að minnsta kosti 40% þeirra sem atkvæðisrétt hafa samþykktu þær líka.[1] Frumvarp, byggt á drögum Stjórnlagaráðs, var lagt fram á Alþingi 16. nóvember 2012. Frumvarpið var rætt í þingsal og um það fjallað í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það náði hins vegar aldrei lengra en í aðra umræðu (Alþingi greiðir venjulega atkvæði um frumvörp að lokinni þriðju umræðu).[2]  6. mars náðist samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um að gera þá tímabundnu breytingu á ákvæði um stjórnarskrárbreytingar sem lýst er hér að ofan. Ástæða þess að aldrei var látið reyna á stuðning þingmanna við frumvarpið var annars vegar efasemdir meðal leiðtoga stjórnarflokkanna um að frumvarpið hefði meirihlutastuðning. Eins virtist stjórnarandstaðan hafa í hyggju að beita málþófi til að tefja málið og koma í veg fyrir afgreiðslu þess. Með þessu sögðust leiðtogar stjórnarflokkanna – sem lögðu frumvarpið fram ásamt formanni á Bjartrar framtíðar – freista þess að halda lífi í frumvarpinu, og ná sem víðtækastri sátt um stjórnarskrárbreytingar.[3]

Ein breyting hefur verið gerð á stjórnarskránni frá hruni en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi.Þar sem nýr stjórnarmeirhluti sem tók við vorið 2013 studdi ekki frumvarp byggt á drögum Stjórnlagaráðs kom ekki til þess að það væri lagt fram aftur á því kjörtímabili. Þess í stað skipaði forsætisráðherra nefnd sem átti að fjalla um mögulegar stjórnarskrárbreytingar.[4] Nefndin skilaði tillögum um þrjár breytingar á stjórnarskránni: Ákvæði um vernd og varðveislu náttúrunnar, ákvæði um þjóðareign á auðlindum og loks ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hefði heimilað að almenningur gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ný lög.Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi forsætisráðherra, lagði fram frumvarp á sumarþingi 2016 þar sem lagt var til að þremur ákvæðum sem samsvöruðu þessum tillögum yrði bætt við stjórnarskrána, en frumvarpið var ekki samþykkt.[5] Loks má geta þess að frumvarp Stjórnlagaráðs hefur þrisvar verið lagt fram á Alþingi eftir að tímabundið breytingaákvæði féll úr gildi. Þingmenn Pírata lögðu frumvarpið fram í janúar 2019 og aftur um haustið – þá með þingmönnum Samfylkingar. Í bæði skiptin fór frumvarpið í gegnum fyrstu umræðu og var sent til meðferðar Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en fékk ekki frekari umfjöllun þings. Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins hafa aftur lagt frumvarpið fram á yfirstandandi þingi (2020-2021).[6]

Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar Finnbogason. Svarið birtist einnig á Vísindavefnum

Tilvísanir:

  1. ^ Lög nr. 91 11. júlí 2013. (Sótt 3.11.2020).
  2. ^ Frumvarp til stjórnskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
  3. ^ Sjá greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
  4. ^ Sjá „Stjórnarskrárnefnd 2013-2017“ á vef forsætisráðuneytisins. (Sótt 3.11.2020).
  5. ^ Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 145. löggjafarþing 2015–2016. (Sótt 3.11.2020).
  6. ^ Sjá frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 149. löggjafarþing 2018–2019. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 150. löggjafarþing 2019–2020. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 151. löggjafarþing 2020–2021. (Sótt 3.11.2020).

Mynd:


Leave a comment

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum