Home » Rökræðukönnun » Embætti forseta Íslands

Embætti forseta Íslands

Á rökræðufundinum ræddu þátttakendur nokkrar tillögur sem sneru að embætti forseta Íslands. Niðurstöður skoðanakannanar sem þátttakendur svöruðu bæði í byrjun fundarins og eftir hann voru eftirfarandi:

  • Hlutverk forseta á að vera óbreytt frá því sem nú er. Fyrst og fremst formlegt en þó þannig að hann geti vísað lögum frá Alþingi til þjóðarinnar: 76% fyrir fund, 77% eftir fund
  • Embættistími forseta á að takmarkast við tiltekinn fjölda kjörtímabila: 70% fyrir fund, 72% eftir fund
  • Óbreytt aldursskilyrði eiga að vera um forsetaframboð: 65% fyrir fund, 53% eftir fund
  • Forseti er kjörinn í kosningum, þar sem kosið er milli tveggja efstu í seinni umferð ef enginn fær meirihluta greiddra atkvæða í fyrri umferð:  63% fyrir fund, 61% eftir fund
  • Forseti er áfram kjörinn á sama hátt og nú er, þ.e. með einfaldri meirihlutakosningu: 56% fyrir fund, 40% eftir fund
  • Forseti er kjörinn með raðaðri kosningu. Kjósendur raða frambjóðendum í forgangsröð sem tryggir að forseti njóti stuðnings meirihluta kjósenda: 38% fyrir fund, 56% eftir fund
  • Völd forseta eiga að vera meiri en nú er þannig að hann geti haft bein áhrif á t.d. ráðningu embættismanna, setningu laga og myndun ríkisstjórna: 31% fyrir fund, 28% eftir fund
  • Völd forseta eiga að vera minni en nú er þannig að hann geti ekki haft bein áhrif á löggjöf eða aðrar ákvarðanir stofnana: 12% fyrir fund, 11% eftir fund

Sameiningartákn með skýrara umboð og málsskotsrétt?

Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er forseti æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins og fer með löggjafarvaldið ásamt Alþingi. Margir telja að greinar stjórnarskránnar – sem gefa til kynna valdamikið hlutverk – samræmist ekki þeim hefðum og venjum sem hafa skapast í kringum embættið. Þrátt fyrir að embættið sé að miklu leyti táknrænt getur forseti neitað að skrifa undir lög sem Alþingi samþykkir og vísað þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þetta kallast málskotsréttur forseta. Um þetta var rætt á rökræðufundinum, auk þess sem þátttakendur veltu fyrir sér fyrirkomulagi forsetakosninga, aldursskilyrðum til forsetaframboðs og mögulegum takmörkunum á embættistíma. Í núverandi kerfi er forseti kosinn með einfaldri meirihlutakosningu, frambjóðendur þurfa að vera orðnir 35 ára til að geta boðið sig fram og engin takmörk eru á því hvað forseti getur setið lengið í embætti.

Mestu viðhorfsbreytingar þátttakenda í umræðunum áttu sér stað í tengslum við það hvernig forseti er kjörinn. Í fyrstu virtust viðhorf þátttakenda gagnvart núverandi fyrirkomulagi jákvæð en gagnrýnni sjónarmið komu fram þegar leið á umræðurnar. Margir þátttakendur höfðu orð á því að stór galli við núverandi kerfi væri að það tryggði ekki að forseti hefði meirihluta kjósenda á bakvið sig. Mörgum fannst tveggja umferða kerfi vera viss öryggisventill, sérstaklega þegar frambjóðendur væru margir eða mjótt væri á munum. Aðrir höfðu áhyggjur af því að þátttaka yrði dræm í seinni umferð. Margir voru spenntir fyrir raðaðri kosningu og bentu á að slíkt fyrirkomulag væri kostnaðarminna en tveggja umferða kerfi. Það gæti jafnframt stuðlað að því að fólk kynnti sér betur hvern forsetaframbjóðenda og yrði óhræddara við að kjósa eftir eigin sannfæringu. Sumir höfðu þó áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag væri of flókið og ef til vill ekki nógu gagnsætt. Umræðurnar og skoðanakannanirnar leiddu í ljós að þátttakendur voru almennt áhugasamir um að breyta kosningafyrirkomulaginu.

Þarf að uppfæra frekar en að breyta?

Viðhorf til hlutverks og valda forseta Íslands héldust nokkuð stöðug í umræðunum. Flestir voru sammála um að forseti ætti fyrst og fremst að vera samstöðutákn þjóðarinnar og „hafinn yfir pólitík“. Flestir voru þó ánægður með málskotsréttinn og töldu hann vera bæði öryggisventil og nauðsynlegt mótvægi við Alþingi. Einhverjir veltu þó fyrir sér hvort það væri nauðsynlegt að forseti hefði málskotsréttinn ef almenningur gæti sjálfur vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stundum voru umræðurnar mótsagnakenndar: til að mynda var umdeilt hvort hvort forseti ætti fyrst og fremst að vera álitinn ópólitískt sameiningartákn eða einhver sem stæði vörð um hagsmuni þjóðarinnar. Þátttakendur ræddu einnig ósamræmið á milli þess sem stendur um hlutverk forseta Íslands í stjórnarskránni og þeirra hefða og venja sem hafa skapast í kringum hlutverkið. Algeng viðhorf á meðal þátttakenda voru að ákvæði um forsetaembættið væru ruglandi, mótsagnakennd og flókin. Margir bentu á að mótun embættisins hefði verið í höndum einstakra forseta í gegnum árin, sem væri óviðeigandi. Ákvæði um hlutverk og völd forseta þyrftu því að vera afar skýr í stjórnarskrá.

Eftir umræðurnar mátti sjá marktækan mun á viðhorfum þátttakanda til aldursskilyrða forsetaframbjóðenda. Sjá mátti að fyrir suma þátttakendur reyndust aldursskilyrðin vera óskoðuð hefð frekar en mikilvæg regla. Einhverjir þátttakendur töldu að skilyrðin væru aldursmismunun og samræmdist ekki gildum lýðræðisríkis. Þrátt fyrir að flestum þætti mikilvægt að frambjóðandi hefði öðlast ákveðna reynslu – sem kæmi ef til vill aðeins með aldrinum – töldu sumir að ekki væri endilega hægt að tengja reynslu við aldur. Einhverjir lögðu áherslu á að kjósendur ættu sjálfir að fá að taka ákvörðun um hvort forsetaframbjóðandi væri nægilega reynslumikill, án þess að skilyrði væru sett um aldur.

Þátttakendur ræddu mögulegar takmarkanir á embættistíma forseta. Flestir voru sammála um að einhver takmörk ættu að gilda, en bar ekki saman um hvort hámarkið ætti til dæmis vera tvö, þrjú eða fjögur kjörtímabil. Margir þátttakendur bentu á að það tæki einstakling tíma að aðlagast embættinu og öðlast reynslu. Það þyrfti að taka tillit til þess, en á sama tíma væri ekki ráðlegt að ein manneskja gæti setið í embætti of lengi. Sumir voru á þeirri skoðun að ótakmarkaður embættistími gæti stuðlað að jafnvægi, og bentu á að almennngur hefði alltaf möguleika á því að kjósa sér nýjan forseta. Aðrir sögðu að í sögulegu samhengi hefði sitjandi forseti vanalega verið endurkjörinn og því væru takmarkanir mikilvægar.

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum