Málstofa um rökræðulýðræði og þátttöku á Hugvísindaþingi

Lýðræðisleg stjórnargerð tekur þátt í Hugvísindaþingi 2022 með málstofunni Rökræður, þátttaka, meðtalning: Lykilatriði lýðræðis, sem hefst kl 13:00 á laugardaginn 12. mars, en þingið sjálft verður sett kl 13 föstudaginn 11. mars.

Í málstofunni er sjónum beint að merkingu lýðræðishugtaksins og spurt annars vegar um nauðsynleg skilyrði lýðræðis, hins vegar um lýðræðislegt lögmæti. Sérstaklega er litið til þriggja þátta lýðræðislegs stjórnarfars sem mikið hefur verið fjallað um á undanförnum árum: Rökræður (e. deliberation), þátttöku (e. participation) og meðtalningu (e. inclusion). Hugmyndin um rökræðulýðræði á sér talsverða sögu og hafa talsmenn þess meðal annars reynt að sýna fram á hvernig gæði þeirrar rökræðu sem lýðræðislegar stofnanir stuðla að sé mikilvægasta stoð lýðræðislegra ákvarðana. En á undanförnum árum hefur þátttakan sjálf líka verið sett í öndvegi, þegar því er haldið fram að lýðræði þarfnist miklu meiri og almennari borgaraþátttöku en hið hefðbundna fulltrúalýðræði gefur kost á. Loks hefur vandi meðtalningarinnar fengið aukið vægi í umræðunni þar sem bent er á að almenningsþátttaka sem slík tryggi ekki aðkomu minnihluta- og jaðarhópa – eða hópa sem standa í einhverjum skilningi veikar en aðrir eða ráðandi hópar. Fyrirlesarar í málstofunni ræða um spurningar um lýðræði sem hver þessara þátta vekur og reyna að greina vægi þeirra til að skýra lýðræðishugtakið. Því er meðal annars haldið fram að rökræðan sem slík geti ekki tryggt gæði ákvarðana og þaðan af síður hnekkt sérhagsmunum. Einnig geti mörg form almenningsþátttöku grafið undan lýðræðislegri ábyrgð og skapað efasemdir um lögmæti ákvarðana.

kl. 13.00-14.30 í stofu 311 í Árnagarði

Jón Ólafsson: Deliberation: Quality vs. Diversity as a measure of democracy
Sævar Finnbogason: From Technocracy to Technopopulism
Milica Minic: Meaningful Participation as a Site of (Productive) Tension: Citizen Engagement and Democratic Accountability

15.00-16.30 í stofu 311 í Árnagarði

Jeremias Schledorn: What you Represent: The Politics of Representation and the Moral Problem of Redescription
Katrín Oddsdóttir: Democratic Constitutionalism and the Icelandic Constitutional Process
Valgerður Björk Pálsdóttir: When deliberative events are disregarded in the political decision-making process: Motivations, attitudes and actions of elected representatives in Iceland

Úrdrætti erindanna og nánari upplýsingar um hugvísindaþingið má sjá hér.

Þátttaka í áhugaverðri netráðstefnu

Jón Ólafsson og Salvör Norðdal verða meðal fyrirlesara á áhugaverðri netráðstefnu sem fram fer þann 28. September í samvinnu við Polish Institute for Human Rights and Business (PIHRB). Ráðstefnan fjallar um rökræðu- og þátttökulýðræði í víðu samhengi. Framlag þeirra til ráðstefnunnar nefnist Icelandic inspirations – social dialogue in Iceland og fjallar um þróun lýðræðislegrar þátttöku og rökræðulýðræðis í íslensku samfélagi frá efnahagshruninu 2008.

Hægt er að kynna sér dagskrá ráðstefnunnar á heimasíðu PIHRB og einnig á fjésbókarsíðu viðurðarins, þar sem fólk getur skráð sig til þátttöku. Allir velkomnir.

Getur Alþingi sem nú situr lögfest nýju stjórnarskrána?

Stutta svarið við spurningunni er einfaldlega nei. Alþingi sem nú situr getur ekki lögfest „nýju stjórnarskrána“. Alþingi getur hins vegar samþykkt frumvarp Stjórnlagaráðs eins og hvert annað frumvarp, sé meirihluti fyrir því á Alþingi. Ef til þess kæmi þyrfti síðan að rjúfa þing og boða til kosninga. Ef frumvarpið ætti að taka gildi þyrfti hið nýkjörna þing einnig að samþykkja það.

Alþingi sem nú situr getur ekki lögfest „nýju stjórnarskrána“. Það getur hins vegar samþykkt frumvarp stjórnlagaráðs, eins og hvert annað frumvarp, sé meirihluti fyrir því á Alþingi.

Það sama gildir ef gera ætti breytingar á stjórnarskrá Íslands, þær fara fram í tveimur lotum, eins og hægt er lesa meira um í svari við spurningunni Hvernig er stjórnarskránni breytt og er hægt að finna betri leið til þess?

Mynd:

Hvernig er stjórnarskránni breytt og er hægt að finna betri leið til þess?

Alþingi getur breytt stjórnarskrá Íslands, en það verður að gerast í tveimur lotum. Fyrst er frumvarp um stjórnarskrárbreytingu lagt fyrir Alþingi og fjallað um það á sama hátt og önnur lagafrumvörp. Breytingin tekur hins vegar ekki gildi þó að Alþingi samþykki það. Til þess að stjórnarskrárbreyting taki gildi þarf að boða til kosninga og fyrsta verk nýs þings eftir kosningar er að greiða aftur atkvæði um frumvarpið. Samþykki Alþingi það aftur tekur breytingin gildi. Sama á við ef ný stjórnarskrá er tekin upp: Fyrst greidd atkvæði á Alþingi, svo haldnar Alþingiskosningar og því næst greidd atkvæði um nýju stjórnarskrána aftur.

Alþingi getur með sama hætti breytt breytingaákvæðum stjórnarskrárinnar – og þar með breytt því til frambúðar hvernig stjórnarskránni er breytt: Þá er lagt fram frumvarp til breytinga á stjórnarskrá um breytingaákvæði hennar. Eftir að það hefur verið samþykkt tvisvar á Alþingi með kosningum á milli, hefur stjórnarskránni verið breytt og eftir það gildir breytingaákvæði frumvarpsins.Undanfarin ár hefur sú skoðun verið áberandi að eðlilegast sé að stjórnarskránni sé ekki breytt nema fyrir liggi stuðningur almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda er það einfaldasta leiðin til að tryggja einhverja beina aðkomu almennings að stjórnarskrárbreytingum. Þjóðaratkvæðagreiðsla ein og sér felur þó ekki í sér að almenningur eigi þátt í að móta tillögur um breytingar á stjórnarskrá eða nýja stjórnarskrá. Árið 1980 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Chile um nýja stjórnarskrá og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. En atkvæði voru greidd um plagg sem samið hafði verið bak við luktar dyr af hópi sem einræðisstjórn Pinochets skipaði. Skyldumæting var á kjörstað. Lögmæti þessarar stjórnarskrár er því takmarkað þrátt fyrir mikinn stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og kom í ljós í þegar Chilebúar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2020 með 78% greiddra atkvæða að kosið yrði Stjórnlagaþing og því falið að skrifa nýja stjórnarskrá Chile, sem svo yrði haldin um þjóðaratkvæðagreiðsla.

Chilebúar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2020 með 78% greiddra atkvæða að kosið yrði Stjórnlagaþing og því falið að skrifa nýja stjórnarskrá Chile, sem svo yrði haldin um þjóðaratkvæðagreiðsla.
Chilebúar hafa nýlega samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að skrifa nýja stjórnarskrá.

Það er erfitt að fullyrða um bestu leiðina til að breyta stjórnarskránni og ekki víst að allar breytingar ættu að krefjast sama ferlis. Þannig er í frumvarpi Stjórnlagaráðs gert ráð fyrir tveimur leiðum. Annars vegar meirihlutasamþykkt þings og þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar þess, hins vegar breyting í einu lagi með ákvörðun þings að því gefnu að ⅚ hlutar þingmanna styddu breytinguna. Þetta var rökstutt með því að smávægilegar breytingar kynni að vera óþarft að bera sérstaklega undir þjóðina. Í Rökræðukönnun 2019 kom hins vegar í ljós að lítill stuðningur er við slíkt ákvæði og yfirgnæfandi meirihluti taldi að alltaf ætti að bera stjórnarskrárbreytingar undir þjóðaratkvæði. Í frumvarpi til Stjórnskipunarlaga sem þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins lögðu fram á þingi í október 2020 og er samhljóða frumvarpinu sem byggt var á drögum Stjórnlagaráðs og Alþingi fjallaði um 2012 til 2013, er gert ráð fyrir því að ⅗ hlutar þingmanna þurfi að samþykkja frumvarp um breytingu á stjórnarskrá, sem því næst sé lagt fyrir kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu. 60% kjósenda þurfi að staðfesta frumvarpið til að breytingin taki gildi.

Þar sem almennt er viðurkennt að mikilvægt er að stjórnarskránni sé ekki jafn auðvelt að breyta og almennum lögum þarf við breytingar á stjórnarskrá að hafa í huga tvennt: Að víðari sátt sé um slíkar breytingar en birtist í einföldum meirihluta og að almenningur hafi sem mesta aðkomu að umræðum og á endanum ákvörðun um breytinguna. Það má segja að breytingaákvæði stjórnarskrár verði því í senn að vera með þeim hætti að almenningur geti greiðlega gert breytingarnar að sínum og verið þátttakandi í þeim, en um leið tryggja að ekki sé of auðvelt eða fljótgert að breyta stjórnarskránni.

Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar finnbogason

Tilvísanir:
Stjórnaskrá Lýðveldisins Íslands, 1. mgr. 79. gr. á vef Alþingis. (Sótt 3.11.2020).

„National Plebiscite in Chile: Voters approve drawing up a new constitution and that it be done by a Constitutional Convention. What are the next steps?“ á vef International Institute for Democracy and Electoral Assistance.

Frumvarp til stjórnarskipunarlaga ásamt skýringum. Reykjavík: Stjórnlagaráð, 2011. (Sótt 3.11.2020).

Endurskoðun stjórnarskrár Íslands: niðurstöður umræðufundar 2019.Viðauki, tafla 127, bls. 33. (Sótt 3.11.2020).

Sjá frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 151. löggjafarþing 2020–2021. (Sótt 3.11.2020).

Mynd:


Hlaðvarpið við ungt baráttufólk um nýju stjórnarskrána

Síðustu misseri hefur verið mjög lífleg umræða um stjórnarskrárbreytingar meðal ungra kjósenda. Þær Ósk Elvarsdóttir og Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum og eiga að stóran þátt í því að kveikja áhuga nýrra kjósenda á „nýju stjórnarskránni“, fólks sem var margt ekki farið að fylgjast með stjórnmálum fyrir tíu árum þegar Stjórnlagaráð samdi frumvarp sitt.

Í fyrri þættinum af tveimur ræða Sævar Finnbogason og Jón Ólafsson við Ósk og Gunnhildi um baráttu þeirra; hver er galdurinn, hvernig kviknaði áhuginn og og hvers vegna er svo mikilvægt taka upp frumvarp Stjórnlagaráðs frekar en að breyta núgildandi stjórnarskrá?
Þú skoðanakannanir sýni mikinn stuðning meðal þessa aldurshóps við frumvarp Stjórnlagaráðs er líka einhver hópur sem við halda í lýðveldisstjórnarskrána og fara varlega í breytingar og í síðari þættinum verðir rætt fulltrúa SUS sem eru aðstandendur vefsins stjornarskra.com

Myndband frá ráðstefnunni um opið lýðræði

Ráðstefnan um opið lýðræði fór fram þann 4. desember og var haldin í samvinnu við skrifstofu forsætisráðherra og OECD. Málstofan hófst á umfjöllun Hélène Landemore um um nýja bók sína, Open Democracy: Reinventing popular rule for the 21st Century. Að lokinni kynningu höfundar heyrum við viðbrögð frá Salvöru Nordal, Jóni Ólafssyni og Alex Hudson. Þá fjallar Claudia Chwalisz frá The Open Government Unit hjá OECD um nýútkoma skýrslu, Innovative Citizen Participation and New Democratic Institutions: Catching the Deliberative Wave. Að lokum heyrum almennar umræður um niðurstöður skýrslunnar.

Málstofan var afar áhugaverð, bæði fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnarskrárbreytingum á Ísland, en þó fyrst og fremst fyrir þá sem hafa áhuga á lýðræðisþróun og þátttöku almennings í stefnumótun.

Af hverju er ekki skráð í stjórnarskrá Íslands að íslenska sé opinbert tungumál landsins?

Einfaldasta skýringin á þessu er að Alþingi, og væntanlega einnig almenningi, hefur ekki þótt nægilega rík ástæða til þess að binda það í stjórnarskrá að íslenska sé opinbert tungumál lýðveldisins.Þetta kann að vera að breytast, til að mynda með tilkomu Internetsins, nýrri máltækni í stafrænum heimi og auknum áhrifum ensku á íslenskt mál. Forsætisráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um stjórnarskrárákvæði um íslenska tungu í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir:

[Í]slenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda. Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda.

Í rökstuðningi með frumvarpinu er vakin athygli á að á þessari öld hafa komið fram tillögur í þessa átt frá Íslenskri málnefnd og Félagi heyrnarlausra sem lagði til að íslenskt táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga.

Ekki verður reynt að leggja mat á það hér hvort að slík ákvæði ættu að vera í stjórnarskránni, en ýmis dæmi eru um að ríki hafi sambærileg ákvæði í stjórnarskrám sínum. Má þar til að mynda nefna til að mynda Danmörk og Spán. Finnar hafa auk ákvæða um opinber tungumál landsins, finnsku og sænsku, ákvæði um táknmál í sinni stjórnarskrá. Þó umræðan um þessi mál hafi ef til vill ekki verið sérlega áberandi síðustu árin má nefna að á þjóðfundi um stjórnarskrá Íslands, sem haldinn var árið 2010, birtist sterkur vilji í þá átt að efla og verja íslenska tungu. Í aðfararorðum frumvarps Stjórnlagaráðs var íslensk tunga nefnd á meðal nokkurra menningarverðmæta og sameiginlegra gilda þjóðarinnar.

Málþing: Opið lýðræði og nýjar lýðræðislegar stofnanir

Málþing á Netinu 4. desember 2020, kl 13.00-16.00

Málstofan er haldin í samvinnu við skrifstofu forsætisráðherra og OECD

Mikil þróun á sér nú á sviði þátttökulýðræðis og í fjölda landa hafa farið fram áhugaverðar lýðræðistilraunir síðustu misseri, þrátt fyrir áhyggjur margra af getu lýðræðislegra stofnana til að takast á við djúpan pólitískan ágreining, efnahagskreppu og stórfelda truflun daglegs lífs vegna heimsfaraldursins sem nú stendur yfir.

Á næstu árum gætu þessar lýðræðisnýjungar umbreytt hinni rógrónu hugmynd um lýðræði eins og við þekkjum það, sem vettvang þar sem kjörnir fulltrúar sem móta stefnuna og taka ákvarðanir studdir sérhæfðri stjórnsýslu. Almenningur mun í auknu mæli krefjast þess—og búast við—að fá aðkomu að ákvörðunum á öllum stigum. Ekki aðeins að frá að greiða atkvæði um stefnumál valin af stjórnmálamönnum, heldur að taka þátt í mótun þessara stefnumála til lengri og skemmri tíma og vega og meta valkosti.

Málstofan hefst á umræðum um nýja bók Hélène Landemore, Open Democracy: Reinventing popular rule for the 21st Century, sem færir rök fyrir mótun lýðræðislegara stofnanaumgjörðar sem byggist á þátttöku almennings í ákvörðunartöku, fremur en valdi kjörinna fulltrúa. Lýðræði sem er ekki kosningamiðað en endurspeglar þrátt fyrir það betur vilja almennings en hefðbundið kosningalýðræði. Að lokinni kynningu höfundar heyrum við viðbrögð frá Salvöru Nordal, Jóni Ólafssyni og Alex Hudson sem munu ræða um meginniðurstöður bókarinnar og umræðu höfundar um gerð frumvarps Stjórnlagaráðs og merkingu þess fyrir lýðræðisþróun almennt.

Í seinnihluta málstofunnar verður fjallað um merkingu bókar Landemore í ljósi nýútkominnar skýrslu OECD, Innovative Citizen Participation and New Democratic Institutions: Catching the Deliberative Wave. Claudia Chwalisz frá The Open Government Unit mun kynna skýrsluna sem fjallar um hvernig rökræðulýðræðisaðferðir virka í ólíku menningarlegu samhengi og dregur fram lærdóma og leiðir sem gætu gagnast við stefnumótun fyrir stjórnmálamenn sem hafa áhuga á að þróa vandað almannasamráð.

Málþingið er opið öllum án endurgjalds en þátttakendur eru beðnir um að skrá sig hér: https://www.eventbrite.co.uk/e/open-democracy-and-new-democratic-institutions-tickets-130395353011

Workshop Program:

13.00-13.05 Setning málstofu
Oddur Þorri Viðarsson, Forsætisráðuneytinu.

13.05-13.35 New book – Open Democracy: Reinventing Popular Rule for the 21st Century
Hélène Landemore, Yale University 

13.35-14.00 Pallborðsumræður
Jón Ólafsson, HÍ. Salvör Nordal, HÍ og Alexander Hudson, rannskakandi hjá Max Planck stofnuninni.

14:00-14:20 Q&A

14:20-14:45 Break

14:45-15:15 Kynning á niðurstöðum OECD-skýrslunnar Catching the Deliberative Wave
Claudia Chwalisz, einn höfunda OECD skýrslunnar.

15:15-15:40 Panel discussion
Claudia Chwalisz, Hélène Landemore, Jón Ólafsson, Salvör Nordal, Alexander Hudson

15:40-16:00 Q&A

16:00 Lokaorð

Áskoranir skoska borgaraþingsins um loftslagsmál

Skoska ríkisstjórnin ákvað að efna til borgaraþings þar sem 100 slembivöldum Skotum er falið að gera tillögur að aðgerðum til að ná að lágmarki loftslagsmarkmiðum sem sett hafa verið. Loftslagsþingið, eins og það er kallað, er sjálfstætt þing með eigin framkvæmdastjórn og stýrihóp sem halda utanum framkvæmd þess. Spurningin sem þinginu er falið að ræða er þessi: Hvaða aðgerða ætti Skotland að grípa til til að bregðast við loftslagsbreytingum á áhrifaríkan og sanngjarnan hátt? Loftslagsþingið glímir þó við tvær áskoranir. Sú sú fyrri er Kófið, hin síðari er snýr að því að varðveita trúverðugleika sinn eftir að fulltrúar Extinction Rebellion sögðu sig úr stýrihópi þingsins. 

Skotar stóðu frami fyrir því nú í haust að fresta loftslagsþinginu (enn á ný) eða flytja það að hluta á netið. Niðurstaðan varð að fyrsta fundalotan fór helgina 7 til 8 nóvember á netinu en stefnt er að því að því að þinga með hefðbundnum hætti um leið og hægt er. En eins og staðan er líklegt að næsta fundarlota sem fer fram 12 til 13 desember verði einnig á netinu. 

Það er áhugavert fyrir þá sem rannsaka þátttökulýðræði því mikil áhersla er lögð á það í slembilýðræði, hvort sem um er að ræða rökræðukönnun eða borgaraþing, að þátttakendur hittist og rökræði málefnin saman augliti til auglitis. Enda verður til ákvæðin “dínamík” í rökræðunni á svona fundum sem þeir Íslendingar sem tóku þátt í þjóðfundunum stuttu eftir hrun eða rökræðukönnuninni sem haldin var 2019 þekkja. Þessari stemningu er erfitt á ná fram með Zoom eða Teams, eins góðar og gagnlegar og þessar tæknilausnir eru. 

Áhugaverðir möguleikar

Á móti kemur að borgaraþing samanstendur venjulega af nokkrum fundarhelgum þar sem allir koma saman á einum stað. Skoska loftslagsþingið fundar sex helgar frá nóvember fram í mars á næsta ári. Þetta er bæði kostnaðarsamt og mikið fyrirtæki. Margir þurfa að ferðast um langan veg til þess að taka þátt. Þó ferðakostnaður og gisting séu greidd fyrir þátttakendur veldur þetta truflun á daglegu lífi og í sumum tilfellum getur fólk sem dregið er út átt erfitt með að taka þátt allar helgarnar. Því eru augljóslega líka kostir við það ef hægt er að flytja einhverja hluta þessarar vinnu á Netið, ef hægt er að lágmarka áhrif þess á rökræðuna, enda er kostnaður meðal þess sem getur staðið í vegi fyrir því að farið verði að notast við borgaraþing í auknu mæli.

Venjan er að fyrstu fundir svona þinga snúist að stærstu leyti um upplýsingagjöf og fræðslu. Þetta eru sennilega sá hluti borgaraþingsins sem er síst viðkvæmur fyrir því að færast á netið. Þessi tilraun Skota reyna á þá kenningu. Skoska loftslagsþingið er reyndar ekki fyrsta stóra borgaraþingið til að nýta sér netið. Franska loftslagsráðstefnan (Convention Citoyenne pour le Climat), sem var slembivalið borgaraþing sem Frakklandsforseti efndi til, og enska loftslagsþingið (Climate Assembly UK) hófust með hefðbundnum fundum en þegar heimsfaraldurinn skall á með fullum þunga vorið 2020 var ákveðið að ljúka þeim á netinu. Það verður því áhugavert að bera árangurinn af þessum þingum saman. 

Gagnsæi er lykilatriði

Dagskrá skoska loftslagsþingsins fyrstu fundarhelgina samanstóð að stærstum hluta af fræðsluefni úr ólíkum áttum og viðbrögðum sérfræðinga við spurningum þátttakenda sem hafði verið skipt í hópa í upphafi fundarins eins og venja er (hvort sem um er að ræða þjóðfund, borgaraþing eða rökræðukönnun). En í stað þess að sitja saman við borð með lóðs voru hóparnir í fundarherbergi á netinu. Þau samskipti voru auðvitað ekki sett á netið en þeir sem hafa áhuga á loftslagsmálum geta séð öll fræðsluerindin ásamt viðbrögðum hópana og svörum sérfræðingana við spurningum hópanna á síðu loftslagsþingsins.

Almenningur á Skotlandi getur því sjálfur lagt mat á allt kynningarefni þingsins, hvort það er hlutdrægt á einhvern hátt eða eitthvað vantar þar uppá. Það er rétt að hafa í huga að reglan er—hvort sem um rökræðukannanir eða borgaraþing er að ræða—að allt kynningarefni og umræður aðrar en rökræður innan hópana eru gerð aðgengileg almenningi.

Þetta er gert til þess að tryggja gagnsæi og traust. Það skiptir máli vegna þess að nær undantekningalaust er efnt til borgaraþinga til þess að fjalla um umdeild og mikilvæg málefni sem stjórnmálamenn eiga erfitt með að koma sér saman um, mál sem fólk í samfélaginu hefur jafnan ólíkar skoðanir á. Loftslagsmál og stjórnarskrárbreytingar eru einmitt dæmi um slík málefni. 

Titringur í undirbúningi loftslagsþingsins

Eins og áður sagði var loftslagsþinginu skipuð sjálfstæð framkvæmdastjórn (e. Secretariat) til þess að halda utanum rekstur þingsins og einnig 25 manna stýrihópur sem endurspeglar ólík sjónarmið. Í stýrihópnum eiga sæti fræðimenn, fulltrúar félagasamtaka og nokkrir fulltrúar stjórnmálaflokka. Hlutverk hópsins er að móta dagskrána, samsetningu sérfræðingahópsins sem er þinginu til ráðgjafar og fylgjast með framkvæmd þess. 

Ein þeirra félagasamtaka sem sem boðið var að taka þátt í undirbúningnum voru samtökin Extinction Rebellion (XR) sem eru öflug baráttusamtök á Bretlandseyjum sem berjast gegn loftslagsbreytingum. XR hafa sett farm 3 skýlausar kröfur. 1) Að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. 2) Að gripið sé til tafarlausra og róttækra aðgerða gegn loftslagsbreytingum fækkun tegunda og 3) að stefnumótun í loftslagmálum verði færð úr höndum stjórnmálamanna til borgaraþinga. Samtökin höfðu töluverð áhrif innan stýrihópsins, og höfðu m.a. afgerandi áhrif í mótun spurningarinnar sem lagt er upp með.

Engu að síður sögðu fulltrúar Extinction Rebelion úr stýrihópnum og lýstu vantrausti á loftslagsþingið stuttu áður en fyrsta fundarlota loftslagsþingsins hófst. Í yfirlýsingu sem samtökin sendu fjölmiðlum í Skotalandi segir:

„Möguleikarnir á að þátttakendur fái raunverulega að ræða stóru málin eru orðnir hverfandi. Sérfræðingarnir sem halda utanum fræðsluefnið eru að stórum hluta valdir af embættismönnum og ekki stendur til að fulltrúar  allskonar sjónarmiða fái þar aðild, svo fólk geti komist að eigin niðurstöðum. Í staðin hefur „business as usual“ læðast inn bakdyramegin og fengið að yfirtaka loftslagþingið.“ 

Í grunninn snúa athugasemdir XR að því að embættismennirnir í framkvæmdastjórninni hafi haft of mikil áhrif á það hvernig viðfangsefni þingsins, sérfræðihópurinn og kynningarefnið hafa þróast. Meðal annars hafa þau beitt sér gegn því að ákveðnir sérfræðingar bæru vitni vegna tengsla sinna við XR. Hvort sem það er tilfellið eða ekki er erfitt að sjá þess merki að embættismenn hafi á einhvern hátt komið málum þannig fyrir að lítið sé gert úr loftslagsvandanum í kynningarefninu. Ekkert bendir til annars en unnið hafi verið af heilindum að því að reyna að tryggja að þátttakendur fái sem bestar og hlutlausar upplýsingar til þess að byggja rökræðurnar á.

Kannski mætti gagnrýna að stýrihópurinn virðist hafa viljað tryggja að borgaraþingið yrði ekki að vettvangur fyrir baráttufólk frá stjórnmála- og félagssamtökum og fulltrúar þrýstihópa til þess að kynna skoðanir sínar. Í staðin er áherslan á að vísindamenn og óháðir sérfræðingar miðli á staðreyndum og svari spurningum. Þegar horft er á sérfræðingahópinn eru þetta fyrst og fremst virtir vísindamenn á ýmsum sviðum sem snúa að loftslagsmálum. Með öðrum orðum virðist áherslan vera á þekkingarmiðaða upplýsingamiðlun fremur en að miðla afstöðu og sjónarmiðum hagsmunahópa og félagssamtaka. Það er þó stundum gert og hefur oft gefist ágætlega.

Þó loftslagsþingið sé sjálfstætt og óháð stjórnvöldum er það er hluti af nýlegri skoskri löggjöf um loftslagsmál sem setur þinginu ákveðinn ramma og það eru því stjórnvöld sem skipar fólk í framkvæmdastjórn til að annast rekstur þess. En skosk stjórnvöld hafa aðspurð um úrsögn XR svarað því að loftslagsþingið sé sjálfstætt og þau skipti sér ekkert af því og hafi ekki vitað af málinu fyrr en það dúkkaði upp í fjölmiðlum.

En þegar lesið er á milli línanna í þeim yfirlýsingum sem hafa komið fram frá XR og öðrum í stýrihópnum virðast aðfinnslur XR bæði snúast um aðferðafræði og hugmyndafræði. En ágreiningurinn vekur dýpri spurningar um hvort að slembivaldir rökræðuhópar muni í framtíðinni njóta eins ríks trausts og áhugafólk um þetta lýðræðisform, eins og t.d. félagar Extinction Rebellion, gera sér vonir um.

Ofmat á áhrifum sérfræðinga?

Að hluta virðist þessi ágreiningur eiga rætur í býsna algengum misskilningi eða byggjast á vantrausti í garð þátttakenda. Þátttakendur eru nefnilega ekki eins og leir í höndunum á skipuleggjendum og sérfræðingum. Hugsanlega byggist þetta vantraust á lítilli þekkingu á því hvernig fólk mótar sér skoðanir á svona fundum. Ég er ekki að halda fram að nýjar upplýsingar hafi engin áhrif á skoðanir fólks á rökræðufundum. Sem betur fer gera þær það allavega stundum. En fólk leggur eigið mat á trúverðugleika þeirra og ræðir þær í hópum sínum þar sem fólk hefur ólíkar skoðanir. 

Þetta sáum við í rannsóknarverkefninu Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð vel  þegar við fórum að greina umræðurnar á borðunum frá rökræðufundinum í Laugardalshöll 8 og 9 nóvember 2019. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þetta betur má benda á röð af hlaðvarpsþáttum þar sem við ræddum við þátttakendur í rökræðufundinum og spurðum þau m.a. út í vitnisburði sérfræðingana hvernig skoðanir þeirra þróuðust á fundinum. Það kom í ljós að það mestu réði hvernig skoðanir þróuðust var rökræðan við hópfélagana. 

Þess má líka geta að þegar fólk er valið til að taka þátt í fundinum af þessu tagi fer það oft að kynna sér málin sjálft af meiri áhuga en áður og mörg mæta því vel upplýst í byrjun fundar. Tilfellið er að það er einfaldlega ekki hægt að gefa sér neitt um það hver niðurstaða borgaraþings kemur til með að verða með því einu að horfa á listann yfir þá sérfræðinga þar koma við sögu. 

Borgaraþing, embættismenn og aktívistar

Þessi uppákoma í aðdraganda skoska loftslagsþingsins dregur fram tvíþættan vanda í undirbúningi rökræðufunda. Annar vandinn er vel þekktur í lýðræðisfræðunum. Það sem kallast á ensku „Institutional Capture“. Hættan á því að embættismenn ráði ferðinni. Þetta þekkjum við úr stjórnmálunum þar sem fólk hefur áhyggjur af áhrifum sérfræðinga ráðuneyta og embættismanna í stjórnkerfinu á ákvarðanir kjörinna fulltrúa. Þar sem borgaraþing eru slembivalin og venjulega til þeirra stofnað af stjórnvöldum eru þau jafnvel viðkvæmari fyrir þessu en Alþingi ef ekki er hugað sérstaklega vel að því að tryggja sjálfstæði þeirra. Meðal þess sem þarf að gera er að fela aðilum utan stjórnsýslunnar fremur en embættismönnum að stýra undirbúningnum. Í skoska tilfellinu virðist framkvæmdastjórnin vera að mestu skipuð embættismönnum. Það er því hætta á að það komi upp gagnrýni ef samtök sem hafa fengið aðild að stýrihópnum gera kröfu um að fá „sitt fólk“ inn, jafnvel þó aðrir taki ekki undir þá kröfu. 

Þetta tengist seinni vandanum sem er sá að pólitísk átök í undirbúningi borgaraþingsins sjálfs geta grafið undan trúverðugleika þess og þá einnig borgaraþinga almennt. Oftrú á áhrif kynningarefnis og sérfræðinga á niðurstöður gæti valdið því að of mikil áhersla er lögð á þann þátt af hálfu þeirra sem berjast fyrir breytingum á samfélaginu. Hugsanlega á það við um XR sem eru sannfærð um að loftslagsmál séu stærsta mál samtímans og lýsa baráttuaðferðum sínum sem friðsamlegri borgaralegri óhlýðni.

Óraunhæfar væntingar?

Hvort sem vandinn í skoska tilfellinu er ónógur vilji XR til málamiðlana eða annarlegur sjónarmið hjá örðum sem komu að loftslagsþinginu ætti þetta að vekja umhugsun um hvaða væntingar megi gera til borgaraþinga. Allavega er ljóst að ekki má búist við því að það þau verði óumdeild, einhverskonar friðarpípa sem hægt er að kveikja upp í þegar stjórnmálamönnum sýnist svo við horfa. Við ættum kannski líka að hafa meiri áhyggjur af því ef áhugin á borgaraþingum reyndist svo lítill að enginn nennti að rífast um þau.

Einhverjir aðilar, hvort sem það verða stjórnmálaflokkar eða samtök munu vafalaust alltaf sjá sig knúin til beita sér í undirbúningi borgaraþinga um umdeild málefni og reyna að koma sínum fulltrúum að í undirbúningshópum og sem sérfræðingum á fundunum til þess að að tryggja að þau sjónarmið sem þau tala fyrir heyrist hátt og skýrt. Takist það ekki má búast við að reynt að verði grafa undan trúverðugleika þinganna. Það kæmi allavega ekki á óvart að samtök, hverra meðlimir lifa og hrærast í baráttunni fyrir málstaðnum (hvort sem um er að ræða stjórnmálahreyfingar eða baráttusamtök á borð við XR) hafi tilhneigingu til þess að telja sig vita best hvað upplýsingar og vitnisburðir eiga erindi við borgaraþing.

En svo er það spurningin um hvað gerist á hinum endanum. Tillögur borgaraþinga og niðurstöður rökræðufunda eru almennt vel ígrundaðar og jafnan framsæknari en það sem kjörnir fulltrúar hafa náð samstöðu um. Samt hafa þær stundum mætt andstöðu og það hefur gerst að þær hafa verið fellar í almennum atkvæðagreiðslum eða strandað á hinum kjörnum fulltrúum. En það er efni í aðra grein.

Burtséð frá þessu öllu virðist skoska loftslagsþingið hafa farið vel af stað og það verður forvitnilegt að fylgjast með því í framhaldinu. En áhugafólk um slembival þarf nú þegar borgaraþingum fer sífjölgandi að vera meðvitað um að gera ráð fyrir ágreiningi um þau. Það undirstrikar það sem var svosem vitað fyrir að gagnsæi og sjálfstæði borgaraþinga er lykilatriði í því að koma í veg fyrir að pólitísk átök grafi undan trúverðugleika þeirra, jafnvel áður en þingið sjálft hefst.

Höfundur: Sævar Finnbogason

Heimsíða loftslagsþingsins:
https://www.climateassembly.scot/

Sjá einnig:
http://stjornarskra.hi.is/is/hladvarp/
http://stjornarskra.hi.is/is/rokraedukonnun/
http://stjornarskra.hi.is/is/frodleikur/stjornlagarad-2011-2/thjodfundur-2010/
http://stjornarskra.hi.is/resources/democratic-participation/citizens-assemblies/

Er þjóðin stjórnarskrárgjafinn?

Hér er líka að finna svar við spurningunni:

Hver er munurinn er á því að setja stjórnlög og önnur lög?

Stutta svarið við spurningunni er einfaldlega já. Og þjóðin er í sama skilningi löggjafi. Þar sem í lýðræðisríki er valdið hjá almenningi eða þjóðinni, og þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda, er mikilvægt að ákvarðanir og stefna meirihluta þingmanna endurspegli líka viðhorf kjósenda. Á milli kosninga fer Alþingi hinsvegar með löggjafarvaldið í umboði almennings og stundum gerist það að þingið fer tímabundið á svig við vilja almennings því það kemur fyrir að stjórnmálamenn telja sig knúna til að samþykkja lög sem meirihluti kjósenda styður ekki. Fyrir því geta verið góðar ástæður (þótt svo sé ekki alltaf): Þingmenn eiga að taka sameiginleg gæði fram yfir önnur gæði. Vald þeirra veitir þeim hlutverk og ábyrgð sem getur birst í að bjarga samfélaginu frá ákvörðunum teknum í skyndi eða vegna múgæsinga sem geta haft hörmulegar afleiðingar.Þegar sagt er að þjóðin – eða almenningur – sé stjórnarskrárgjafi er yfirleitt átt við að löggjafinn eigi ekki að geta tekið ákvarðanir um innihald stjórnarskrár án skýrrar heimildar til þess frá almenningi. Slíka heimild er hægt að fá með ýmsu móti. Ein leiðin er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar, önnur að krefjast aukins meirihluta á þingi en þá er gert ráð fyrir því að samstaða meðal þorra þingmanna, sé líkleg til að endurspegla líka meirihlutavilja í samfélaginu. Íslenska leiðin er að láta þingið samþykkja stjórnarskrárbreytingar tvisvar með kosningum á milli.

Þegar sagt er að þjóðin – eða almenningur – sé stjórnarskrárgjafi er yfirleitt átt við að löggjafinn eigi ekki að geta tekið ákvarðanir um innihald stjórnarskrár án skýrrar heimildar til þess frá almenningi.

En spurningin um stjórnarskrárgjafann ristir þó enn dýpra þegar betur er að gáð og varðar einmitt samspil almennings og kjörinna fulltrúa. Ef hugmyndin er sú að um stjórnarskrárbreytingar þurfi að vera víðtæk samstaða í samfélaginu nægir ekki að horfa til einnar þjóðaratkvæðagreiðslu eða samþykktar á þingi. Víðtæk samstaða þarf að ná til þversniðs samfélagsins en hún þarf líka að vera varanleg. Tveggja þinga leiðin hefur þann styrkleika að hún teygir úr ákvörðun yfir nokkurra vikna eða mánaða tímabil sem gefur bæði almenningi og kjörnum fulltrúum gott tækifæri til að rökræða og hugleiða breytinguna. Hún er því óbein leið til að stuðla að því að almenningur taki þátt í breytingunni.En mörgum finnst óbein aðild engan veginn nóg. Benda má á að enn meiri hlutdeild almennings skapist við að hinn almenni borgari fá sem mest tækifæri til að koma beint að stefnumótandi umræðum um stjórnarskrárbreytingar, taka þátt í að móta þær, fremur en að leggja lóð sitt einvörðungu á vogarskálarnar í atkvæðagreiðslu til að veita stjórnarskrárbreytingum sem lagðar eru fram af þingmönnum brautargengi eða stöðva þær.

Stjórnlagaráð sem samdi drög að nýrri stjórnarskrá 2011 opnaði ritunarferlið fyrir almenningi með því að birta reglulega þau drög sem ráðið vann með og gefa fólki kost á að ræða þau og einstök atriði þeirra á félagsmiðlum eða í beinum samskiptum við þá sem sátu í ráðinu.

Stjórnlagaráð sem samdi drög að nýrri stjórnarskrá 2011 opnaði ritunarferlið fyrir almenningi. Mynd tekin á öðrum fundi Stjórnlagaráðs 2011

Í þeirri endurskoðun á stjórnarskránni sem unnið hefur verið að á þessu kjörtímabili hefur samráð við almenning farið fram með rökræðukönnun sem fól annars vegar í sér stóra viðhorfskönnun til nokkurra atriða í stjórnarskránni, hins vegar rökræðufund þar sem 230 einstaklingar sem höfðu áður tekið þátt í viðhorfskönnuninni rökræddu sömu atriði og svöruðu að því loknu nýrri könnun um viðhorf til fyrirhugaðra stjórnarskrárbreytinga.

Áherslan á þjóðina sem stjórnarskrárgjafa hefur hún öðlast aukið vægi vegna samráðs Stjórnlagaráðs við almenning og vaxandi áhuga á almenningssamráði á undanförnum árum. Það er því erfitt að sjá fyrir sér nú að nokkrum dytti í hug að breyta stjórnarskránni án þátttöku almennings við mótun tillagna. Að þessu leyti hefur viðhorf til stjórnarskrárbreytinga – ekki bara á Íslandi heldur um allan heim – breyst á stuttum tíma.

Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar FInnbogason

Myndir:

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum