Home » Fróðleikur » Stjórnlagaráð og ferlið frá 2010 til 2013

Stjórnlagaráð og ferlið frá 2010 til 2013

Meðlimir Stjórnlagaráðs í Iðnó. Mynd af flikr síðu Stjórnlagaráðs

Stjórnarskrárbreytingaferlið sem stóð yfir frá 2010 til 2012 í heild og það almenningssamráð sem Stjórnlagaráð stóð að í vinnu sinni við gerð draga að nýrri stjórnarskrá vakti strax mikla athygli fræðimanna og aktívista um allan heim.

Viðleitni Stjórnlagaráðs til almenningssamráðs í vinnu sinni við gerð nýrrar stjórnarskrár vakti heimsathygli og naut almenns stuðnings almennings á Íslandi. Ferlið varð öðrum löndum innblástur til þess að vinna að stjórnarskrárbreytingum í samráði við almenning. Stjórnlagaráð skilaði drögum að nýrri stjórnarskrá til Alþingis 2011.

Þó að mikil umræða hafi farið fram um stjórnarskrá lýðveldisins í kjölfar efnahagshrunsins 2008 má segja að ferlið hafi formlega hafist í júní 2010 þegar Alþingi samþykkti frumvarp um stjórnlagaþing.

Síðar á því ári, þann 6. nóvember, var efnt til þjóðfundar þar sem tæplega 1000 manna hópur sem valinn var með slembivali ræddi helstu gildi og áhersluatriði stjórnarskrár á eins dags fundi sem haldinn var 2010, og áttu niðurstöður hans að nýtast stjórnlagaþinginu í vinnu sinni.

Kosið var til stjórnlagaþings þann 27. nóvember 2010 en Hæstiréttur ógilti kosningarnar vegna tæknilegra ágalla á framkvæmd þeirra. Alþingi skipaði svo Stjórnlagaráð í mars 2011 þar sem þeim sem kosnir höfðu verið fulltrúar á Stjórnlagaþingi í nóvember 2010 var boðið sæti. 25 fulltrúar voru kosnir á Stjórnlagaþing og tóku 24 þeirra sæti í Stjórnlagaráði, en einn hafnaði þátttöku. Sá frambjóðandi sem lent hafði í 26 sæti í stjórnlagaþingskosningunum tók því sæti í ráðinu.

Stjórnlagaráð samdi frumvarp til nýrrar stjórnarskrár sem afhent var Alþingi í byrjun ágúst 2011.

Árið 2012 ákvað Alþingi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt var um afstöðu almennings til nokkurra ákvæða í nýrri stjórnarskrá. Einnig var spurt „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ og 66.9% þeirra sem tóku afstöðu svöruðu spurningunni játandi.

Þrátt fyrir þetta náði Alþingi ekki samstöðu um stjórnarskrárbreytingar fyrir kosningarnar 2013. Eftir kosningar til Alþingis 2013 tók ný ríkisstjórn við og skipaði forsætisráðherra þá Stjórnarskrárnefnd, sem ætlað var að vinna að frumvarpi um stjórnarskrárbreytingar á kjörtímabilinu 2013 til 2017. Sú nefnd lagði fram þrjú frumvörp til nýrra greina stjórnarskrár um auðlindir, umhverfi og þjóðaratkvæaðgreðislur að frumkvæði almennings en þessi frumvörp hlutu ekki brautargengi áður en þingi var slitið.

Lesendum er bent á að ýmsan frekari fróðleik um þetta er að finna hér

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum