Home » Rökræðukönnun » Þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði

Þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði

This image has an empty alt attribute; its file name is DSC_2652-notud.jpeg

Á rökræðufundinum ræddu þátttakendur þó nokkuð margar tillögur sem sneru að þjóðaratkvæðagreiðslum og svokölluðu þjóðarfrumkvæði. Niðurstöður skoðanakannanna sem þátttakendur tóku í byrjun og lok fundarins voru eftirfarandi:

  • Forseti á að geta vísað nýrri löggjöf til þjóðarinnar: 85% fyrir fund, 90% eftir fund
  • Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna eiga alla jafna að vera bindandi fyrir yfirvöld: 82% fyrir fund, 83% eftir fund
  • Almenningur á að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja lagasetningu ef krafa um slíkt nýtur stuðnings tiltekins hluta kjósenda: 74% fyrir fund, 80% eftir fund
  • Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna eiga aðeins að vera bindandi þegar meirihluti er 2/3 eða meira: 62% fyrir fund, 54% eftir fund
  • Almenningur á að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um almenn málefni, ekki aðeins nýja lagasetningu: 57% fyrir fund, 44% eftir fund
  • Ákveðið hlutfall kjósenda á að geta lagt fram þingmál (þjóðarfrumkvæði): 49% fyrir fund, 59% eftir fund
  • Minnihluti þingmanna t.d. 1/3 á að geta vísað nýrri löggjöf til þjóðarinnar: 31% fyrir fund, 43% eftir fund
  • Þjóðaratkvæðagreiðslu má halda um hvaðeina: 31% fyrir fund, 22% eftir fund
  • Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna eiga aðeins að vera ráðgefandi: 15% fyrir fund, 8% eftir fund

Þjóðaratkvæði

Í stjórnarskrá er kveðið á um að þjóðaratkvæðagreiðslur skuli eiga sér stað í vissum kringumstæðum, en aðeins átta þjóðaratkvæðagreiðslur hafa átt sér stað í sögu Íslands. Undanfarin ár hefur áhugi á þátttöku almennings í pólitískri ákvarðanatöku aukist. Umræður um slíkt hafa aðallega snúist að því að auka leiðir til þess að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í núgildandi stjórnarskrá eru engar kröfur um þátttökuþröskuld eða aukinn meirihluta svo niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna geti talist bindandi. Engin ákvæði eru heldur til staðar um þjóðarfrumkvæði – sem myndi þýða að ákveðið hlutfall kjósenda gæti komi máli á dagskrá hjá Alþingi. Umræðurnar í heild leiddu í ljós að þátttakendur voru almennt áhugasamir um aukna möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum. Einnig er vert að nefna að í umræðum um önnur málefni á rökræðufundinum bárust þjóðaratkvæðagreiðslur oft til tals.

Mikill stuðningur við þjóðaratkvæðagreiðslur og málskotsréttinn

Yfirgnæfandi meirihluta þátttakenda fannst málskotsréttur forseta Íslands vera mikilvægur öryggisventill, en þó vildu margir að aðrir en forseti gætu knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Rétt undir helmingur þátttakenda hafði áhuga á því að minnihluti þingmanna gæti vísað nýrri löggjöf til þjóðarinnar. Sumir höfðu áhyggjur af því að þetta vald gæti lamað starfsemi Alþingis; aðrir töldu þó að samvinna á þingi myndi aukast, þar sem þingmenn myndu reyna að forðast tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur. Mikill meirihluti vildi einnig að ákveðið hlutfall kjósenda gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja lagasetningu. Þátttakendur voru ósammála um hversu hátt hlutfallið ætti að vera en margir stungu upp á 10-25% kjósenda. Sumir höfðu áhyggjur af því að þjóðaratkvæðagreiðslur yrðu of tíðar og gætu jafnvel skert getu stjórnmálamanna til þess að taka erfiðar ákvarðanir. Einn þátttakandi sagði að við kysum okkur fulltrúa því við hefðum sjálf ekki tíma til þess að kafa djúpt í flókin mál. Flestir voru þó áhugasamir um þennan möguleika.

Þátttakendur voru ósammála um hvort öll mál ættu að geta farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sumir lögðu áherslu á að aðeins ætti að vera kosið um „stór“ mál, eða mál sem væru þess eðlis að þau hefðu áhrif á alla landsmenn. Margir töldu að fjárlög og skattamál ættu að vera undanskilin. Sumir minntust einnig á mannréttindi og réttindi minnihlutahópa sem málefni sem ættu ekki heima í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur

Flestir vildu að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna væru almennt bindandi fyrir yfirvöld. Einn þátttakandi komst þannig að orði að ef þjóðaratkvæðagreiðslur væru ekki bindandi væru þær tilgangslausar. Þetta viðhorf kom fram á mörgum borðum. Flestir voru þó á þeirri skoðun að einhver skilyrði þyrftu að gilda svo niðurstöður væru bindandi, til dæmis að ákveðið hlutfall kjósenda þyrfti að taka þátt.

Þjóðarfrumkvæði: Þingmál að frumkvæði borgara

Þjóðarfrumkvæði var nýtt fyrirbæri fyrir mörgum. Hugmyndin er í grófum dráttum sú að borgarar geti fengið frumvörp tekin til umfjöllunar að því gefnu að tekist hafi að safna ákvæðnum fjölda meðmæla eða undirskrifta. Margir voru ekki vissir um hvernig þetta fyrirkomulag myndu virka og vildu kynna sér málið frekar. Sumum fannst að áherslan ætti frekar að vera á að styrkja tengsl á milli kjósenda og kjörinna fulltrúa. Öðrum fannst hugmyndin vera góð og töldu að þjóðarfrumkvæði gæti myndað þrýsting á stjórnvöld og Alþingi. Þar sem þjóðarfrumkvæði er nýstárleg fyrir mörgum var þessi umræða mjög fróðleg fyrir marga þátttakendur. Einn þátttakandi orðaði það þannig að þjóðarfrumkvæði gæti verið mikilvægur hluti þess að innleiða aukið beint lýðræði í íslensk stjórnmál. Margir lögðu á sama tíma áherslu á að þetta yrði að vanda og setja skýran ramma í kringum framkvæmdina. Nokkrir stungu upp á því að aðeins ætti að leyfa ákveðinn fjölda þjóðarfrumkvæða yfir visst tímabil. Það er svo einmitt spurning hvort sama markmiði mætti ná með því að stilla rétt af fjölda meðmæla sem mál þyrfti til þess að komast á dagskrá.

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum