Home » Fréttir » Framtíð rökræðunnar

Framtíð rökræðunnar

Rannsóknasetrið EDDA við Háskóla Íslands stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu sem nefnist „The Future of Deliberation. Exploring Political, Social and Epistemic Control“. Ráðstefnan fer fram 3. júní í Veröld – Húsi Vigdísar við Háskóla Íslands og markar lok rannsóknaverkefnisins Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð sem hlaut öndvegisstyrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og er leitt af Jóni Ólafssyni

Vonin um að rökræður og samræður almennings ásamt aukinni beinni þátttöku almennings í stefnumótun og ákvörðunum muni leiða til víðtækra umbóta á sviði lýðræðis hefur verið áberandi síðustu ár og áratugi. Hugmyndin um að rökræðan ryðji brautina til lýðræðislegrar endurnýjunar burt frá þeirri krísu sem virðist hrjá lýðræðið nú, hefur verið einn meginkjarni umræðna um lýðræðiskenningar og lýðræðisnýjungar. En þrátt fyrir mikið grasrótarstarf og ríkan áhuga á lýðræðislegum umbótum á alþjóðlegum vettvangi virðist hið öfuga hafa gerst. Tilhneigingar til að beita ógnarstjórn hafa aukist, jafnvel innan landamæra þeirra ríkja sem búa við rótgrónastar hefðir fulltrúalýðræðis. Á sama tíma eflist popúlismi eins og púkinn á fjósbitanum í löndum sem lengi hafa ræktað velferðarkerfi og pólítískan jöfnuð. Á ráðstefnunni verður rýnt í framtíð rökræðunnar í pólitísku samhengi dagsins í dag, lýðræðisnýjungar verða ræddar með gagnrýnum hætti, þar á meðal sjálf hugsjón rökræðunnar.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast á heimasíðu EDDU: https://edda.hi.is/the-future-of-deliberation-exploring-political-social-and-epistemic-control/

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum