Home » Rökræðukönnun » Ákvæði um breytingar á stjórnarskrá

Ákvæði um breytingar á stjórnarskrá

Á rökræðufundinum ræddu þátttakendur nokkrar tillögur í tengslum við ákvæði um breytingar á stjórnarskrá. Þeir tóku síðan afstöðu til þessara tillagna í skoðanakönnun í byrjun fundarins og eftir hann. Niðurstöðurnar voru eftirfarandi:

  • Breytingar á stjórnarskrá á alltaf að bera undir þjóðaratkvæði: 75% fyrir fund, 82% eftir fund
  • Breytingar á stjórnarskrá eiga áfram að þurfa samþykki tveggja þinga: 67% fyrir fund, 59% eftir fund
  • Yfirgnæfandi meirihluti þings (5/6) á að geta breytt stjórnarskrá: 44% fyrir fund, 39% eftir fund
  • Aukinn meirihluti þings (2/3) á að geta breytt stjórnarskrá í einni atvæðagreiðslu: 19% fyrir fund, 14% eftir fund

Samþykki tveggja þinga
Í núverandi kerfi þarfnast stjórnarskrárbreytingar samþykkis einfalds meirihluta tveggja þinga, aðskildra með kosningum, svo þær taki gildi. Þetta tvískipta kerfi á að koma í veg fyrir vanhugsaðar breytingar á stjórnarskrá og auka líkurnar á því að víðtæk sátt sé um þær. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs 2011 var gert ráð fyrir því að eitt þing gæti samþykkt stjórnarskrárbreytingar með yfirgnæfandi meirihluta (5/6). Í sumum löndum er þjóðaratkvæðagreiðsla jafnframt hluti af ferli stjórnarskrárbreytinga, en slíkt fyrirkomulag hefur ekki verið innleitt á Íslandi.

Erfitt, en ekki þannig að ekki sé hægt að breyta neinu

Sumir þátttakendur voru að mestu ánægðir með núgildandi stjórnarskrá, en langflestir voru þó sammála um að mörgu þyrfti að breyta – enda hefði stjórnarskráin staðið nokkuð óbreytt frá árinu 1944. Á yfirborðinu voru umræðurnar nokkuð mótsagnakenndar. Þátttakendur sammældust um að stjórnarskrárbreytingar ættu ekki að vera auðveldar; þær ættu að vera erfiðar, en ekki of erfiðar. Þátttakendur voru almennt sammála um að að öryggisventlar þyrftu að vera til staðar, en mörgum fannst núverandi kerfi vera of seinvirkt. Einnig mátti sjá einhverja togstreitu á milli þess hvort stjórnarskráin ætti að vera „lifandi plagg“ eða tímalaus. Umræðurnar snerust þannig að miklu leyti um það að finna fyrirkomulag sem einkenndist af jafnvægi.

Áhugi á þjóðaratkvæðagreiðslum um stjórnarskrárbreytingar

Viðhorf þátttakenda voru fjölbreytt og margar tillögur komu fram. Mörgum fannst undarlegt að Alþingismenn gætu einir og sér samþykkt breytingar og þannig „sett sínar eigin leikreglur“. Sumir höfðu jafnframt áhyggjur af því að stjórnmálamenn hefðu meiri áhuga á því að verja ákveðna hagsmuni en að innleiða mikilvægar breytingar. Einhverjir veltu fyrir sér hvort Alþingismenn væru tregir til þess að samþykkja breytingar svo þeir gætu forðast þingrof. Af þessum ástæðum og fleirum, til dæmis vegna þess sjónarmiðs að stjórnarskráin væri ákveðinn samfélagssáttmáli, væri mikilvægt að almenningur tæki þátt í ferlinu. Margir þátttakendur lýstu áhuga á því að geta samþykkt einstakar breytingar, en ekki „allan pakkann“ í mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Einnig kom upp það sjónarmið að Alþingi ætti að geta gert smávægilegar eða tæknilegar breytingar án aðkomu almennings, en að þjóðaratkvæðagreiðsla væri nauðsynleg fyrir umfangsmeiri breytingar. Sumir höfðu þó áhyggjur af því hvernig ætti að skilja á milli stærri og smærri breytinga. Eins og skoðanakannanirnar sýna voru þátttakendur almennt sammála um að allar breytingar á stjórnarskrá ættu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum