Home » Rökræðukönnun » Landsdómur og ákæruvald Alþingis

Landsdómur og ákæruvald Alþingis

This image has an empty alt attribute; its file name is DSC_2766.jpeg

Á rökræðufundinum voru nokkrar tillögur tengdar Landsdómi og ákæruvaldi Alþingis ræddar. Þátttakendur tóku afstöðu til þeirra í skoðanakönnun í byrjun og lok fundarins. Tillögurnar, og breytingar á viðhorfum þátttakenda, voru eftirfarandi:

  • Alþingi á áfram að hafa vald til að ákæra ráðherra fyrir brot í starfi og Landsdómur á að dæma í slíkum málum: 52% fyrir fund, 21% eftir fund
  • Alþingi á að hafa vald til að ákæra ráðherra en almennir dómstólar að fjalla um slík mál: 49% fyrir fund, 50% eftir fund
  • Alþingi á ekki að hafa vald til að ákæra ráðherra og Landsdóm skal leggja niður: 24% fyrir fund, 55% eftir fund
  • Hægt er að misnota ákæruvald Alþingis og Landsdóm í pólitískum tilgangi: 70% fyrir fund, 79% eftir fund
  • Ákæruvald Alþingis og Landsdómur eru nauðsynleg til að almenningur geti treyst því að mál á hendur framkvæmdarvaldinu séu sótt á hlutlausan og sanngjarnan hátt: 52% fyrir fund, 32% eftir fund

Landsdómur

Samkvæmt stjórnarskrá falla brot ráðherra í starfi undir lög um ráðherraábyrgð, sem er skipt í þrennt: stjórnarskrárbrot, brot á öðrum landslögum og brot á góðri ráðsmennsku. Þessi brot geta verið annað hvort framkvæmdarbrot eða vanrækslubrot. Alþingismenn taka ákvörðun um hvort ráðherra sé ákærður og er málinu þá vísað til Landsdóms, sem er sérstakur dómstóll sem meðhöndlar slík mál og dæmir í þeim. Hann hefur aðeins einu sinni verið kallaður saman, þrátt fyrir að hafa verið stofnaður árið 1905; árið 2011, þegar Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, var ákærður fyrir vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins 2008. Fyrirkomulagið hefur lengi verið umdeilt og í samhengi endurskoðunar stjórnarskránnar hefur nauðsyn þessa sérstaka úrræðis verið dregið í efa. Í gegnum árin hafa margar tilraunir verið gerðar til þess að endurskoða lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm, en jafnvel þótt slíkar tillögur hafi verið samþykktar á Alþingi hefur lítið gerst í þeim efnum.

Ákæruvald Alþingis og Landsdómur börn síns tíma

Eins og niðurstöður skoðanakannananna gefa til kynna breyttust viðhorf þátttakenda til Landsdóms og ákæruvalds Alþingis töluvert eftir umræðurnar. Vantraust í garð fyrirkomulagsins varð enn meira eftir því sem leið á umræðurnar. Margir þátttakendur töldu Landsdóm og ákæruvald Alþingis vera vera barn síns tíma, úrelt og jafnvel tilgangslaust. Margir þátttakendur efuðust um að Alþingismenn væru hæfir til þess að taka ákvörðun um að ákæra samstarfsfólk sitt eða pólitíska andstæðinga. Umræður um mál Geir H. Haarde voru fyrirferðarmiklar, en mörgum fannst ósanngjarnt að hefði verið látinn „taka fallið“ og verið eini ráðherrann sem var ákærður. Margir notuðu orð eins og „farsi“ eða „farsakennt“ til þess að lýsa málaferlunum og töldu málið hafa verið mjög pólitískt.

Sjá mátti tvö áberandi stef í umræðunum. Annars vegar var mikið rætt um mikilvægi þess að tryggja „ópólitískt ferli“ þegar ráðherrar væru ákærðir fyrir brot í starfi. Hins vegar var rætt um meint ábyrgðarleysi og skort á afleiðingum fyrir brot ráðherra og aðra stjórnmálamanna í starfi. Margir töldu að í öðrum löndum væri hefð fyrir því að stjórnmálamenn segðu af sér ef þeir yrðu uppvísir að misferli í starfi, en að slíkt væri fátítt á Íslandi. Einnig höfðu margir þátttakendur orð á því að lög um ráðherraábyrgð þyrftu að vera skýrari.

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum