Home » Spurt og svarað um stjórnarskrána » Hversu erfitt þarf að vera að breyta stjórnarskránni?

Hversu erfitt þarf að vera að breyta stjórnarskránni?

Segja má að meginhlutverk stjórnarskrár í lýðræðisríkjum sé af tvennum toga. Annarsvegar að stjórnarskráin sé traustur og öruggur rammi utan um stjórnskipulag, stjórnmál og löggjöf og hinsvegar að tryggja grundvallarréttindi sem talin eru undirstaða borgaralegs lýðræðissamfélags og þrískiptingar ríkisvaldsins. Stjórnarskrár eiga einnig að sporna gegn mögulegu ofríki meirihlutans svo að frelsi og borgararéttindum sé ekki rutt skyndilega úr vegi með einfaldri meirihlutaákvörðun, með sama hætti og almennum lögum er breytt. Þess vegna er talað um að stjórnarskrár þurfi að vera tregbreytanlegar.Þessum markmiðum má hinsvegar ná með ólíkum hætti. Í sumum ríkjum þurfa tvö þing með kosningum á milli að samþykkja breytinguna, eins og til að mynda á Íslandi eða í Svíþjóð, þar sem dugar einfaldur meirihluti í hvort skipti. Í Svíþjóð gerir stjórnarskráin þó einnig ráð fyrir að þingið – Riksdagen – geti ákveðið að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingu sem það hefur samþykkt. Niðurstaðan er bindandi ef meirihluti kjósenda hafnar tillögunni en er annars ráðgefandi.[1] Sumstaðar þarf aukinn meirihluta í annarri atkvæðagreiðslunni eða jafnvel báðum eins og til dæmis í Litháen.[2]

Önnur algeng leið er sú að einfaldur eða aukinn þingmeirihluti samþykki fyrst breytingartillögu sem kjósendur þurfa að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu til að hún taki gildi. Einnig eru dæmi um að sumum greinum í stjórnarskrá sé auðveldara að breyta en öðrum, en þá eru venjulega undanskildar greinar sem varða grundvallarmannréttindi og stjórnskipanina sjálfa. Þá er í sumum stjórnarskrám — svo sem stjórnarskrám Eistlands og Litháens — að finna ákvæði sem taka fyrir allar breytingar á stjórnarskránni í stríðsástandi eða þegar lýst hefur verið yfir neyðarástandi.[3]

Í sumum stjórnarskrám — svo sem stjórnarskrám Eistlands og Litháens — er að finna ákvæði sem taka fyrir allar breytingar á stjórnarskránni í stríðsástandi eða þegar lýst hefur verið yfir neyðarástandi. Myndin sýnir hermenn að marsera í Eistlandi 2018.

Í sumum stjórnarskrám — svo sem stjórnarskrám Eistlands og Litháens — er að finna ákvæði sem taka fyrir allar breytingar á stjórnarskránni í stríðsástandi eða þegar lýst hefur verið yfir neyðarástandi. Myndin sýnir hermenn að marsera í Eistlandi 2018.Vegna sögulegra tengsla íslensku og dönsku stjórnarskránna er áhugavert að reglur um stjórnarskrárbreytingar eru mun þrengri í Danmörku en hér á landi. Þar þarf hvorttveggja: tvö þing með kosningum á milli og þjóðaratkvæði með að minnsta kosti 40% þátttöku, auk staðfestingar drottningar til þess að ná fram breytingu á stjórnarskránni.[4] Í stuttu máli má því segja að stjórnarskráin þurfi að vera nægilega sveigjanleg til þess að hægt sé að breyta henni þegar ástæða er til og góð samstaða um breytinguna, en nógu tregbreytanleg til þess að ekki sé hægt að gera breytingar á henni sem orka tvímælis, til dæmis vegna þess að með þeim sé sneitt að réttindum borgaranna eða valdheimildir ríkisins rýmkaðar verulega.Samanburður á stjórnarskrám er annars heil fræðigrein. Benda má á vefina constitutionnet.org og constituteproject.org þar sem finna má texta flestra gildandi stjórnarskráa í heiminum í enskri þýðingu og leiðir til að bera saman einstök atriði þeirra.

Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar Finnbogason.
Greinin birtist einnig á Vísindavefnum

Tilvísanir:

  1. ^ Riksdagsförvaltningen, The Constitution. (Sótt 9.11.2020).
  2. ^ Constitute, ‘Lithuania 1992 (Rev. 2019)’, Constitute, 2019. (Sótt 9.11.2020)
  3. ^ Constitute, ‘Compare Constitutions’, Constitute. (Sótt 9.11.2020).
  4. ^ Constitute, ‘Denmark 1953’, Constitute. (Sótt 9.11.2020).

Mynd:

Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð er í samstarfi við Vísindavefinn um að svara spurningum um stjórnarskránna og stjórnarskrárbreytingar – hægt er að senda spurningarnar til Vísindavefsins (visindavefur@hi.is) eða beint til Rannsóknaverkefnisins (stjornarskra@hi.is).

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum