Home » Fréttir » Stjórnarskráin og framsal valds til alþjóðastofnana

Stjórnarskráin og framsal valds til alþjóðastofnana

Að mörgu að hyggja á borði 18.

Pistill: Sævar Finnbogason skrifar

Er eitt af meginhlutverkum stjórnarskrárinnar að verja fullveldið? Þessa spurningu og margar fleiri glímdu þátttakendur á rökræðufundinum í Laugardalshöll við þegar þeir ræddu það hvort nauðsynlegt væri að breyta stjórnarskránni til þess að hún fjallaði um framsal valds til alþjóðastofnana. Sú umræða sýnir glöggt að ef skapaðar eru góðar aðstæður fyrir almenning til þess að rökræða málin er venjulegt fólk fullfært um að komast að niðurstöðum um flókin og oft á tíðum tæknileg mál þar sem margskonar gildi þarf að taka með í reikninginn.

Spurningin hér að framan kann að virðast fyrst og fremst lagatæknileg við fyrstu sýn, en það eru fleiri hliðar á málinu. Hvað er átt við með fullveldi? Hvað sem það er getur það varla verið það eitt að standa fyrir utan alþjóðasamninga og samstarf? Þó að það hafi komið skýrt fram í umræðunum á rökræðufundinum að fólk hefur ólíkar skoðanir á því hvaða alþjóðasamstarf er æskilegt; sumir vilja ganga í ESB og aðrir ekki, sumir vilja ganga úr NATÓ og aðrir vera, þá eru eru fá (ef nokkur) sem hafna allri samvinnu hvaða nafni sem hún nefnist.

Og kannski er það einmitt þannig að fullveldi þjóðarinnar raungerist hvað helst í því að Ísland sé tekið nægilega alvarlega af öðrum þjóðum til þess að hægt sé að gera gagnkvæma samninga við okkur?

Allavega er ljóst að fullveldið er Íslendingum ofarlega í huga. Það sést til dæmis á því að í byrjun rökræðufundarins töldu 87% fundarmanna eitt mikilvægasta hlutverk stjórnarskrárinnar að verja fullveldi landsins. Þó það hlutfall hafi lækkað niður í  81% eftir rökræðurnar er það engu að síður afar afgerandi meirihlutaskoðun. Mun meiri breytingar urðu hinsvegar þegar kom að spurningunni um það hvort að gera þyrfti breytingar á stjórnarskránni til þess að stjórnarskráin heimilaði að stjórnvöld geti gert samninga sem feli í sér þær gagnkvæmu skuldbindingar sem alþjóðasamstarf krefst oft, en 45% voru á þeirri skoðun fyrir rökræðuna , en 20% fleiri eða 66% í lok fundar.

Það áhugaverða við þetta er lesa má úr þessum tölum, ásamt því að rýna í umræðurnar frá fundinum að við rökræðurnar virðist greinilega hafi aukist bæði skilningur og þekking hjá mörgum þátttakendum á þeim kvöðum og ávinningi sem alþjóðasamstarfi sem fylgir alþjóðasamstarfi og eðli þess.

Þetta kann að virðast mótsagnakennt ef hugmyndin um fullveldi er skilin mjög þröngt eða út frá þjóðernisstefnu að hafa svo sterkar hugmyndir um fullveldi og vilja á sama tíma koma ákvæði í stjórnarskrána sem heimilar framsal valds að einhverju leiti. En þá ber að hafa í huga að þegar fólk var spurt að því í upphafi fundarins hvort það teldi mikilvægt að ákvarðanir um framkvæmd alþjóðasamninga lúti fyrirframgefnum og skýrum reglum sem eru óháðar pólitískum ágreiningi sögðust 83% sammála því og 92% eftir rökræðurnar.

Með öðrum orðum, það er einmitt vegna áherslunnar á fullveldi sem stuðningur jókst við það í umræðunum að settar væru skýrar reglur í stjórnarskránna um heimildir til að gera skuldbindandi alþjóðasamninga og að það fari eftir skýrum og fyrirframgefnum reglum.

Þessi tengsl verður líka skýrari þegar umræðurnar sjálfar eru skoðaðar. Margir óttuðust að ef ekki væru til staðar skýrar reglur um þetta byði það heim hættunni á að teknar yrðu slæmar ákvarðanir, jafnvel bakvið tjöldin, og bentu ýmsir á stuðning Íslands við innrásina í Írak. Einnig komum fram áhyggjur sem tengdust þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Þar snerust áhyggjur margra að því að með aðild að EES samningnum væri hætta á að hagsmunir Íslands væru fyrir borð bornir, þar sem að Ísland passaði ekki inn í það regluverk vegna sérstöðu sinnar. En á móti var bent á að ísland gæti þrátt fyrir allt, sem frjáls fullvalda þjóð, sagt sig frá EES samningnum ef það teldi hagsmunum sínum betur borgið utan hans. En það ber hinsvegar að sama brunni; að æskilegt sé að það séu skýrt kveðið á um hvernig gengið sé í og úr slíku samstarfi.

Það er kannski vegna þessarar umræðu að allmargir töldu nauðsynlegt að þær reglur sem rötuðu inn í stjórnarskrána kvæðu á um að öll meiriháttar mál af þessu tagi þyrftu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin ætti að hafa aðkomu að slíkum málum.

Það má því ef til vill draga þá ályktun að skilningur almennings á hugmyndinni um fullveldi og sjálfstæði séu ekki eins þröngur eða einangrunarsinnaður og oft er gefið í skyn. En þetta er einmitt blæbrigði sem hefðbundnar spurningakannanir eiga erfitt með að leiða í ljós.


Leave a comment

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum