Home » News » Rökræðukönnun

Rökræðukönnun

Um helgina (9 og 10) efna Háskóli Íslands og ríkisstjórn Íslands til fundar þar sem um 250 slembivaldir Íslendingar allstaðar af á landinu munu koma saman og ræða um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Niðurstöðurnar verða kynnar ríkisstjórninni og nýttar sem framlag í vinnu stjórnvalda að stjórnarskrárbreytingum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands hefur sagt að lýðræðislegu samráði við almenning sem lykilatriði í því að vel takist til í þessari vinnu, en Alþingi mun þurfa samþykkja fyrirhugaðar breytingar fyrir lok kjörtímabilsins.

Fundur fólks af öllu landinu

Rökræðufundurinn er hluti af rökræðukönnun sem haldin er í samvinnu við Center for Deliberative Democracy við Stanford háskóla.Fólkið sem tekur þátt í fundinum um helgina er hluti af úrtaki í stórri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var í sumar um afstöðu til nokkurra spurninga sem tengjast fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskránni.Hluta þess hóps var svo boðið að taka þátt í rökræðufundinum þar sem fólk ræðir um fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar á jafningjagrundvelli, þar sem fólk má búast við að hitta fyrir fólk með afar ólíkar skoðanir.

Þátttakendur munu svara nýrri spurningakönnun í upphafi fundarins og svo aftur að loknum fundi á sunnudag.Markmið fundarins er að komast það hver skoðun fólks sem hefur haft tök á að ræða kynna sér málin og ræða þau við aðra í sömu sporum kann að vera.Eða með öðrum orðum, að leiða fram ígrundað almenningsálit á því hvað gera skuli.

Á rökræðufundinum sjálfum fara umræður þátttakenda fram í smærri hópum og á milli umræðulotna gefst fundinum tækifræi til að spyrja sérfræðinga á sviði stjórnarskrárréttar, stjórnmálaheimspeki, stjórnmálafræði og sagnfræði til að varpa ljósi á vafamál sem koma fram í umræðunum.

Að sjá og skilja viðhorfsbreytingar

Rökræðukannanir eru byggðar á vísindalegum aðferðum sem gera mögulegt að fylgjast með og mæla breytingar í viðhorfum til viðfangsefna. Hólfað slembival tryggir að úrtakið endurspeglar kjósendur. Rökræður í anda rökræðulýðræðis og hlutlaust fræðsluefni, ásamt aðgengi að sérfræðingum á fundinum sjálfum skapar skilyrði fyrir þátttakendur að móta sér ígrundaða afstöðu til viðfangsefnanna. 

Center for Deliberative Democracy (CDD) undir forystu James Fishkin hefur langa reynslu af því að standa að rökræðukönnunum. Haldnar hafa verið 109 rökræðukannanir í 28 löndum um allan heim. Sú síðasta sem CDD stóð fyrir var „America in One Room“ sem fjallaði um nokkur af snúnustu viðfangsefnum bandarískra stjórnmála í dag.Helstu fjölmiðlar þar í landi hafa fjallað um könnunina, m.a. CNN og the New York Times.

(Sjá https://cdd.stanford.edu/2019/america-in-one-room/ )

Óvenjuleg blanda af lýðvistun og rökræðukönnun

Eitt af því sem gerir þetta samráðsferli óvenjulegt er hvernig blandað er saman samráðsaðferðum, þ.e. lýðvistun (e. Crowd sourcing) í gegnum netið og rökræðukönnun.Lýðvistunin fór fram í gegnum samráðsvefinn Betra Ísland og var opin öllum öllum. Fyrir utan það að nýtast rökræðukönnuninni mun sú opna umræða og hugmyndasöfnun sem þar fór fram vera aðgengileg stjórnmálamönnum. 

Núverandi hugmyndir um stjórnarskrárbreytingar sækja eldivið sinn í þá miklu umræðu sem verið hefur í samfélaginu um stjórnarskrána á umliðnum árum. Fulltrúar allra flokka á alþingi taka þátt í þessari endurskoðunarvinnu af hálfu Alþingis og þarf þingið að ná samstöðu um frumvörp um breytingar fyrir lok kjörtímabilsins. En samkvæmt núgildandi stjórnarskrá þurfa tvö þing með kosningum á milli að samþykkja frumvörpin til þess að þau fái gildi.

Forsagan

Nú meira en sex árum eftir að frumvarp Stjórnlagaráðs dagaði uppi á Alþingi hefur ríkisstjórnin undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur hrint af stað víðtæku almenningssamráði og farvegi til þess að til þess að gera þarfar breytingar á núgildandi stjórnarskrá í anda þeirrar umræðu sem farið hefur fram í samfélaginu, og hefur meðal annars mótast af drögum stjórnlagaráðs.

Þrátt fyrir að vinna Stjórnlagaráðs hafi farið fram fyrir opnum tjöldum og í víðtæku samráði við almenning, að undangegnum Þjóðfundi árið 2010 og almenningur hafi verið spurður álits á frumvarpsdrögunum í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012, komst málið ekki í gegn fyrir þingkosningarnar 2013. Síðan þá hefur engin ríkisstjórn tekið frumvarp stjórnlagaráðs upp.

Í því ferli sem nú er hafið hefur forsætisráðherra leitað til fræðasamfélagsins til þess að tryggja trúverðugleika samráðsferlisins.Einnig kemur sjálfstæð sameignarstofnun sem nefnist Citizens’ Foundation að lýðvistunarhluta verkefnisins.  en stofnunin hefur meðal annars hannað og haldið utanum Betri Reykjavík og fleiri lýðvistunarverkefni. En lýðvistunin er einnig hluti af stærra rannsóknarverkefni á vegum rannsóknarverkefnisins Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð.

Frekari upplýsingar:

Niðurstöður upphafskönnunar

Betra Ísland

Viðtal við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Jón Ólafsson, prófessor um samráðsferlið


Leave a comment

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum