Home » Fréttir (Page 2)
Category Archives: Fréttir
Samstarf um stjórnarskrána
Rannsóknaverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrágerð og Vísindavefurinn hafa stofnað til samstarfs um stjórnarskrármál. Nýlega skiluðu forystukonur Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá undirskriftum 43.423 íslenskra borgara þar sem þess er krafist að Alþingi „virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána“ –þar sem „Nýja stjórnarskráin“ vísar til frumvarps Stjórnlagaráðs frá 2011, sem dagaði uppi í meðförum Alþingis í mars 2013. Á þessu kjörtímabili hefur forsætisráðherra hins vegar haft forystu um tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem formenn allra flokka á þingi hafa fjallað um á reglulegum fundum. Hluti þeirra atriða stjórnarskrárinnar sem ætlunin er að breyta á þessu kjörtímabili hafa einnig verið rædd í umfangsmiklu almenningssamráði sem forsætisráðuneytið stóð fyrir árið 2019, en Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist umsjón þess og Rannsóknaverkefnið veitti ráðgjöf.
Vegna þess hve margir boltar eru á lofti í stjórnarskrármálum þessar vikurnar og svo verður líklega fram á vor, vitum við að marga fýsir að vita meira um einstaka þætti núgildandi stjórnarskrár og frumvarp Stjórnlagaráðs. Saga íslensku stjórnarskrárinnar er orðin nokkuð löng og ekki alveg einföld og jafnvel fólk sem hefur staðgóða þekkingu á stjórnarskránni áttar sig oft á því að það eru gloppur í þekkingunni. Allir eru betur settir ef greiður aðgangur er að skýrum svörum við algengum spurningum um stjórnarskrána og sögu hennar.
Við ætlum því að leitast við að svara þeim spurningum sem til okkar berast – annaðhvort til Vísindavefsins (visindavefur@hi.is) eða beint til Rannsóknaverkefnisins (stjornarskra@hi.is).
Tilgangurinn er að hjálpa fólki til að skilja og átta sig á þeim spurningum sem nú er fjallað um á félagsmiðlum, í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna og því hvetjum við alla til að senda okkur spurningar sem upp kunna að koma um stjórnarskrána eða málefni tengd henni. Við munum gera okkar besta til að gefa stutt en innihaldsrík svör. En við erum ekki fullkomin heldur: Við hvetjum líka þá sem sjá annmarka á svörum okkar að láta okkur vita af því svo við getum lagað það sem úrskeiðis kann að fara.
Sjá frétt á vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80423
Hér má lesa fyrsta svarið á Vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80418
Jón Ólafsson ræðir stöðuna í stjórnarskrármálum í Kastljósinu
Jón Ólafsson var gestur Kastljóssins þann 20. október þar sem hann fjallaði um stöðuna sem upp er komin varðandi stjórnarskrárbreytingar nú þegar rúmlega 40.000 manns hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að leggja frumvarp Stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Hvaða kostir eru í stöðunni? Getur farið svo að engar stjórnarskrárbreytingar verði þegar upp er staðið niðurstaða ágreiningsins um leið á að fara, jafnvel þó að svo virðist sem mikil samstaða sé um að ná í það minnsta fram ákveðnum markmiðum, s.s. þjóðareign á náttúruauðlindum, ákvæðum um náttúruvernd og breytingar á kaflanum um forseta Íslands svo eitthvað sé nefnt.
Feneyjanefndin sendir frá sér álit á breytingatillögum
Það er mjög áhugavert að skoða álit Feneyjanefndarinnar á nýjustu vendingum í stjórnarskrámálum hér, enda greinilegt að nefndin telur almenningssamráð kjarnann í hverskyns endurskoðun, en vill um leið horfa á stóru línurnar frekar en karp um merkingu orða:
„It is not the task of the Commission to “validate” or “invalidate” the decision of the current authorities to proceed with only partial amendments to the Constitution, nor to arbitrate between different philosophical conceptions of natural resources or of environmental protection.“
Það er að vísu dálítið skondið að gera lítið úr háværum deilum um orðalag umhverfis- og auðlindaákvæða með því að kalla þær „different philosophical conceptions“.
…„Moreover, the Venice Commission also welcomes the great variety of public consultation mechanisms used in the current constitutional reform process … and takes note of the statement by the authorities … that the constitutional reform is an ongoing process in Iceland and will not be limited to the amendments currently submitted to the Commission for assessment.“
Þetta er kannski eitt mikilvægasta kommentið – að hugsa um stjórnarskrárendurskoðun sem stöðuga vegferð frekar en eitt átaksverkefni.
„The Commission considers that the Icelandic people should be given transparent, clear and convincing explanations for the government’s choices, and the underlying reasons for significant departures from the previous 2012 draft approved in the consultative referendum should be explained to the public.“
Líka algjört lykilatriði: Hversvegna þessi leið og þessar tillögur?
Er hægt að skýra það á sannfærandi hátt?
https://www.venice.coe.int/webforms/documents/?pdf=CDL-AD(2020)020-e
Rökræðufundurinn, traust í garð stjórnmálanna og nýja stjórnarskráin.
Síðasti þátturinn í hlaðvarpsþátttaröðinni um rökræðufundinn er nú kominn í viðtækin. Frá því í sumar hefur Sævar rætt við þátttakendur í rökræðufundinum sem fram fór í Laugardalshöll í nóvember 2019 um upplifun þeirra af fundinum. Í þessum aukaþætti heyrum við bæði áhugaverðbrot úr fyrri þáttum og nýtt efni þar sem þátttakendur ræða til að mynda um stjórnmálin almennt og hvort þau hafi meiri áhuga á að taka þátt í stjórnmálum eftir fundinn. Margir ræddu einnig stöðuna sem er uppi varðandi frumvarp Stjórnlagaráðs og hvernig það samræmdist rökræðukönnuninni og þeirri vinnu við breytingar á stjórnarskránni sem nú stendur yfir. Við þökkum þeim Nönni, Hjalta Degi, Guðmundi G, Aðalheiði, Magdalenu, Guðberg, Ingu Fanney og Magnúsi hjartanlega fyrir að gefa sér tíma til þess að deila reynslu sinni og skoðunum með okkur.
Rökræðufundur og hvað svo?
Í nýjasta þætti hlaðvarpsins ræðir Sævar Finnbogason Valgerði Björk Pálsdóttur og Jón Ólafsson prófessor frá rannsóknarverkefninu um lýðræðislega stjórnarskrárgerð um sjónarmið þátttakenda í rökræðufundinum og hvernig til tókst, líkurnar á því að takist að breyta stjórnarskránni, af hverju ekki var rætt um ákvæðið umnáttúruauðlindir á rökræðufundinum. Bendir reynslan af þessari tilraun til þess að rökræðukannanir virki í íslensku samhengi?
Stjórnarskráin og framsal valds til alþjóðastofnana
Pistill: Sævar Finnbogason skrifar
Er eitt af meginhlutverkum stjórnarskrárinnar að verja fullveldið? Þessa spurningu og margar fleiri glímdu þátttakendur á rökræðufundinum í Laugardalshöll við þegar þeir ræddu það hvort nauðsynlegt væri að breyta stjórnarskránni til þess að hún fjallaði um framsal valds til alþjóðastofnana. Sú umræða sýnir glöggt að ef skapaðar eru góðar aðstæður fyrir almenning til þess að rökræða málin er venjulegt fólk fullfært um að komast að niðurstöðum um flókin og oft á tíðum tæknileg mál þar sem margskonar gildi þarf að taka með í reikninginn.
Spurningin hér að framan kann að virðast fyrst og fremst lagatæknileg við fyrstu sýn, en það eru fleiri hliðar á málinu. Hvað er átt við með fullveldi? Hvað sem það er getur það varla verið það eitt að standa fyrir utan alþjóðasamninga og samstarf? Þó að það hafi komið skýrt fram í umræðunum á rökræðufundinum að fólk hefur ólíkar skoðanir á því hvaða alþjóðasamstarf er æskilegt; sumir vilja ganga í ESB og aðrir ekki, sumir vilja ganga úr NATÓ og aðrir vera, þá eru eru fá (ef nokkur) sem hafna allri samvinnu hvaða nafni sem hún nefnist.
Og kannski er það einmitt þannig að fullveldi þjóðarinnar raungerist hvað helst í því að Ísland sé tekið nægilega alvarlega af öðrum þjóðum til þess að hægt sé að gera gagnkvæma samninga við okkur?
Allavega er ljóst að fullveldið er Íslendingum ofarlega í huga. Það sést til dæmis á því að í byrjun rökræðufundarins töldu 87% fundarmanna eitt mikilvægasta hlutverk stjórnarskrárinnar að verja fullveldi landsins. Þó það hlutfall hafi lækkað niður í 81% eftir rökræðurnar er það engu að síður afar afgerandi meirihlutaskoðun. Mun meiri breytingar urðu hinsvegar þegar kom að spurningunni um það hvort að gera þyrfti breytingar á stjórnarskránni til þess að stjórnarskráin heimilaði að stjórnvöld geti gert samninga sem feli í sér þær gagnkvæmu skuldbindingar sem alþjóðasamstarf krefst oft, en 45% voru á þeirri skoðun fyrir rökræðuna , en 20% fleiri eða 66% í lok fundar.
Það áhugaverða við þetta er lesa má úr þessum tölum, ásamt því að rýna í umræðurnar frá fundinum að við rökræðurnar virðist greinilega hafi aukist bæði skilningur og þekking hjá mörgum þátttakendum á þeim kvöðum og ávinningi sem alþjóðasamstarfi sem fylgir alþjóðasamstarfi og eðli þess.
Þetta kann að virðast mótsagnakennt ef hugmyndin um fullveldi er skilin mjög þröngt eða út frá þjóðernisstefnu að hafa svo sterkar hugmyndir um fullveldi og vilja á sama tíma koma ákvæði í stjórnarskrána sem heimilar framsal valds að einhverju leiti. En þá ber að hafa í huga að þegar fólk var spurt að því í upphafi fundarins hvort það teldi mikilvægt að ákvarðanir um framkvæmd alþjóðasamninga lúti fyrirframgefnum og skýrum reglum sem eru óháðar pólitískum ágreiningi sögðust 83% sammála því og 92% eftir rökræðurnar.
Með öðrum orðum, það er einmitt vegna áherslunnar á fullveldi sem stuðningur jókst við það í umræðunum að settar væru skýrar reglur í stjórnarskránna um heimildir til að gera skuldbindandi alþjóðasamninga og að það fari eftir skýrum og fyrirframgefnum reglum.
Þessi tengsl verður líka skýrari þegar umræðurnar sjálfar eru skoðaðar. Margir óttuðust að ef ekki væru til staðar skýrar reglur um þetta byði það heim hættunni á að teknar yrðu slæmar ákvarðanir, jafnvel bakvið tjöldin, og bentu ýmsir á stuðning Íslands við innrásina í Írak. Einnig komum fram áhyggjur sem tengdust þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Þar snerust áhyggjur margra að því að með aðild að EES samningnum væri hætta á að hagsmunir Íslands væru fyrir borð bornir, þar sem að Ísland passaði ekki inn í það regluverk vegna sérstöðu sinnar. En á móti var bent á að ísland gæti þrátt fyrir allt, sem frjáls fullvalda þjóð, sagt sig frá EES samningnum ef það teldi hagsmunum sínum betur borgið utan hans. En það ber hinsvegar að sama brunni; að æskilegt sé að það séu skýrt kveðið á um hvernig gengið sé í og úr slíku samstarfi.
Það er kannski vegna þessarar umræðu að allmargir töldu nauðsynlegt að þær reglur sem rötuðu inn í stjórnarskrána kvæðu á um að öll meiriháttar mál af þessu tagi þyrftu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin ætti að hafa aðkomu að slíkum málum.
Það má því ef til vill draga þá ályktun að skilningur almennings á hugmyndinni um fullveldi og sjálfstæði séu ekki eins þröngur eða einangrunarsinnaður og oft er gefið í skyn. En þetta er einmitt blæbrigði sem hefðbundnar spurningakannanir eiga erfitt með að leiða í ljós.
Hlaðvarpið: Rætt við þátttakendur í rökræðufundinum um stjórnarskrárbreytingar.
Hverskonar fólk er tilbúið til þess að sitja heila helgi frá morgni til kvölds að ræða við bláókunnugt fólk um stjórnarskrárbreytingar? Er það fyrst og fremst fólk sem er fyrir virkt í stjórnmálum eða bara fólk eins og þú og ég?
Rannsóknarverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð hlaðvarpsseríu í fimm þáttum sem koma á netið vikulega á fimmtudögum, þar sem Sævar Finnbogason ræðir við átta þátttakendur í rökræðufundinum á um stjórnarskrárbreytingar sem haldinn dagana 8 og 9 nóvember 2019. Viðmælendurnir eru á aldrinum átján til 77 ára, fjórir karlar og fjórar konur, sem ýmist komu á fundinn utan að landi eða höfuðborgarsvæðinu og markmiði var að eiga létt og afslappað spjall m.a. um upplifun þeirra af fundinum, reynsluna af samræðunum, hvort þau skiptu um skoðun á einhverjum málum og væntingar þeirra til þess hvernig farið verður með niðurstöður fundarins.
Í fyrsta þættinum kynnumst við viðmælendunum og heyrum frá þeim hverju þeirra hvers vegna þau samþykktu að taka þátt í rökræðufundinum þegar þau voru dregin út í slembivalinu. Við spyrjum þau líka hvort þau hefðu tekið þátt í hefðbundnum stjórnmálum eða teldu sig vera „pólitísk.“ Ekkert þeirra taldi sig vera pólitískt í þeim skilningi að vera flokkspólitískt eða stafa í stjórnmálaflokki, sumir vissu heilmikið um stjórnarskrána fyrir fundinn, aðrir minna eins og gengur.
Við spurðum alla viðmælendurna um sömu atriðin sem tengjast upplifun þeirra af fundinum og hvort hvernig skoðanir þeirra á máefnum þróuðust. í hverjum þætti tökum við fyrir eitt þema og heyrum við í öllum viðmælendum.
Slembivalin borgaraþing og rökræðufundir
Guðmundur Hörður heldur úti áhugaverðu hlaðvarpi um samfélagsmál. Hann fékk Sævar Finnbogason í spjall til þess að ræða rökræðufundinn um breytingar á stjórnarskránni sem haldinn var í nóvember 2019 og til að fræða hlustendur um slembivalin borgaraþing, rökræðufundi og þáttökulýðræði.
Í viðtalinu vara Sævar eindregið við afleiðingum þess að stjórnvöld hunsi niðurstöður rökræðukönnunarinnar sem haldin var á vegum forsætisráðuneytisins, það muni grafa undan trausti til þátttökulýðræðis og leiða til þess að fólk sjái ekki ástæðu til að verja tíma sínum í slíkt samráð. En Guðmundur byrjaði á að spyrja Sævar um slembivalin borgaraþing og möguleikann á því að efna til slíkra þinga til að ná niðurstöðum í málum sem stjórnmálaflokkarnir virðast ekki ráða við, eins og t.d. fiskveiðistjórnunarkerfið og auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
Rökrætt um Landsdóm og ákæruvald Alþingis
Geir H. Haarde er eini íslenski ráðherrann sem hefur verið dregin fyrir landsrétt. Mynd RÚV
Á rökræðufundinum um breytingar á stjórnarskránni sem haldinn var í nóvember voru mörg atriði sem tengjast þeim greinum stjórnarskrárinnar sem nú eru í umsagnarferli í Samráðsgátt stjórnvalda rædd.
Ein þeirra spurninga sem þátttakendur svöruðu fyrir og eftir umræðurnar var þessi; Alþingi á ekki að hafa vald til að ákæra ráðherra og Landsdóm skal leggja niður.
Fyrir umræðurnar voru 24% þátttakenda frekar, mjög eða fullkomlega sammála því að afnema ákæruvald Alþingis 59% Eftir umræðurnar hafði þetta nánast snúist við og 55% þátttakenda vildi afnema ákæruvald Alþingis og leggja Landsdóm niður. Aðeins 32% töldu rétt að halda þessu fyrirkomulagi áfram.
Það komur á óvart að fyrir fundinn var töluverður munur á viðhorfum til þessa máls eftir kyni. Fyrir fund töldu 75% kvenna að Alþingi ætti að halda ákæruvaldinu og Landsómur ætti áfram að vera við líði, en það hlutfall lækkaði niður í 36% eftir umræðurnar. Hinsvegar voru aðeins 48% karla á þessari skoðun fyrir umræðurnar og en 28% eftir fund.
Ljóst var af umræðunum að almenningur hefur áhyggjur af pólitískum áhrifum og misnotkun á ákæruvaldi Alþingis og Landsdómsfyrirkomulaginu. Þátttakendur notu oft orðið „farsi“ yfir landsdómsréttarhöldin yfir Geir Haarde og ljóst að reynslan af aðdraganda þeirra og réttarhöldunum sjálfum hafði mikil áhrif. Því er ljóst á niðurstöðum rökræðufundarins að það er ríkur vilji til þess að ákæruvaldi í málefnum sem snúa að ráðherraábyrgð verði fundinn nýr og ópólitískur farvegur.
Lýðræði eftir Covid-19, Borgaraþátttaka, vald stofnana og sameiginleg gæði.
COVID-19 heimsfaraldurinn er mesta áskorun sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir síðan á árum Heimskreppunnar og Seinni heimsstyrjaldarinnar. Afleiðingar hans verða miklar: Hagkerfi kunna að hrynja, það mun reyna gríðarlega á pólítíska forystu, leiðir til ákvarðana gætu breyst, jafnvel með byltingarkenndum hætti.
Munu þau pólitísku átök sem sem fylgja kreppunni birtast í samkeppni valdahópa um stuðning kjósenda eða hefur kreppan för með sér varanlegar kerfislægar breytingar bæði á innlendum og alþjóðlegum vettvangi? Ein mest spennandi spurningin núna er sú hvort að þessir erfiðleikar skapa vettvang fyrir aukna lýðræðislega þátttöku allra hópa í samfélaginu. Mun ástandið draga úr nauðsyn þess að almenningur taki þátt í að móta stjórnarskrár, sem og önnur meiriháttar stefnumál? Mun krísan hafa varanleg áhrif á ríkjandi gildismat í samfélaginu eða auka áhuga fólks á félagslegri samvinnu og velferð? Gæti hún minnkað áherslu á einstaklingsfrelsi í stjórnmálaumræðunni?
Þessar spurningar og aðrar af sama toga verða til umræðu á ráðstefnunni, sem miðlað er alþjóðlega.
og stjornarskra.hi.is