Home » Spurt og svarað um stjórnarskrána
Category Archives: Spurt og svarað um stjórnarskrána
Getur Alþingi sem nú situr lögfest nýju stjórnarskrána?
Stutta svarið við spurningunni er einfaldlega nei. Alþingi sem nú situr getur ekki lögfest „nýju stjórnarskrána“. Alþingi getur hins vegar samþykkt frumvarp Stjórnlagaráðs eins og hvert annað frumvarp, sé meirihluti fyrir því á Alþingi. Ef til þess kæmi þyrfti síðan að rjúfa þing og boða til kosninga. Ef frumvarpið ætti að taka gildi þyrfti hið nýkjörna þing einnig að samþykkja það.
Það sama gildir ef gera ætti breytingar á stjórnarskrá Íslands, þær fara fram í tveimur lotum, eins og hægt er lesa meira um í svari við spurningunni Hvernig er stjórnarskránni breytt og er hægt að finna betri leið til þess?
Mynd:
- Stjórnlagaþing’s albums | Flickr. (Sótt 8.12.2020).
Hvernig er stjórnarskránni breytt og er hægt að finna betri leið til þess?
Alþingi getur breytt stjórnarskrá Íslands, en það verður að gerast í tveimur lotum. Fyrst er frumvarp um stjórnarskrárbreytingu lagt fyrir Alþingi og fjallað um það á sama hátt og önnur lagafrumvörp. Breytingin tekur hins vegar ekki gildi þó að Alþingi samþykki það. Til þess að stjórnarskrárbreyting taki gildi þarf að boða til kosninga og fyrsta verk nýs þings eftir kosningar er að greiða aftur atkvæði um frumvarpið. Samþykki Alþingi það aftur tekur breytingin gildi. Sama á við ef ný stjórnarskrá er tekin upp: Fyrst greidd atkvæði á Alþingi, svo haldnar Alþingiskosningar og því næst greidd atkvæði um nýju stjórnarskrána aftur.
Alþingi getur með sama hætti breytt breytingaákvæðum stjórnarskrárinnar – og þar með breytt því til frambúðar hvernig stjórnarskránni er breytt: Þá er lagt fram frumvarp til breytinga á stjórnarskrá um breytingaákvæði hennar. Eftir að það hefur verið samþykkt tvisvar á Alþingi með kosningum á milli, hefur stjórnarskránni verið breytt og eftir það gildir breytingaákvæði frumvarpsins.Undanfarin ár hefur sú skoðun verið áberandi að eðlilegast sé að stjórnarskránni sé ekki breytt nema fyrir liggi stuðningur almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda er það einfaldasta leiðin til að tryggja einhverja beina aðkomu almennings að stjórnarskrárbreytingum. Þjóðaratkvæðagreiðsla ein og sér felur þó ekki í sér að almenningur eigi þátt í að móta tillögur um breytingar á stjórnarskrá eða nýja stjórnarskrá. Árið 1980 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Chile um nýja stjórnarskrá og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. En atkvæði voru greidd um plagg sem samið hafði verið bak við luktar dyr af hópi sem einræðisstjórn Pinochets skipaði. Skyldumæting var á kjörstað. Lögmæti þessarar stjórnarskrár er því takmarkað þrátt fyrir mikinn stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og kom í ljós í þegar Chilebúar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2020 með 78% greiddra atkvæða að kosið yrði Stjórnlagaþing og því falið að skrifa nýja stjórnarskrá Chile, sem svo yrði haldin um þjóðaratkvæðagreiðsla.
Það er erfitt að fullyrða um bestu leiðina til að breyta stjórnarskránni og ekki víst að allar breytingar ættu að krefjast sama ferlis. Þannig er í frumvarpi Stjórnlagaráðs gert ráð fyrir tveimur leiðum. Annars vegar meirihlutasamþykkt þings og þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar þess, hins vegar breyting í einu lagi með ákvörðun þings að því gefnu að ⅚ hlutar þingmanna styddu breytinguna. Þetta var rökstutt með því að smávægilegar breytingar kynni að vera óþarft að bera sérstaklega undir þjóðina. Í Rökræðukönnun 2019 kom hins vegar í ljós að lítill stuðningur er við slíkt ákvæði og yfirgnæfandi meirihluti taldi að alltaf ætti að bera stjórnarskrárbreytingar undir þjóðaratkvæði. Í frumvarpi til Stjórnskipunarlaga sem þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins lögðu fram á þingi í október 2020 og er samhljóða frumvarpinu sem byggt var á drögum Stjórnlagaráðs og Alþingi fjallaði um 2012 til 2013, er gert ráð fyrir því að ⅗ hlutar þingmanna þurfi að samþykkja frumvarp um breytingu á stjórnarskrá, sem því næst sé lagt fyrir kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu. 60% kjósenda þurfi að staðfesta frumvarpið til að breytingin taki gildi.
Þar sem almennt er viðurkennt að mikilvægt er að stjórnarskránni sé ekki jafn auðvelt að breyta og almennum lögum þarf við breytingar á stjórnarskrá að hafa í huga tvennt: Að víðari sátt sé um slíkar breytingar en birtist í einföldum meirihluta og að almenningur hafi sem mesta aðkomu að umræðum og á endanum ákvörðun um breytinguna. Það má segja að breytingaákvæði stjórnarskrár verði því í senn að vera með þeim hætti að almenningur geti greiðlega gert breytingarnar að sínum og verið þátttakandi í þeim, en um leið tryggja að ekki sé of auðvelt eða fljótgert að breyta stjórnarskránni.
Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar finnbogason
Tilvísanir:
Stjórnaskrá Lýðveldisins Íslands, 1. mgr. 79. gr. á vef Alþingis. (Sótt 3.11.2020).
„National Plebiscite in Chile: Voters approve drawing up a new constitution and that it be done by a Constitutional Convention. What are the next steps?“ á vef International Institute for Democracy and Electoral Assistance.
Frumvarp til stjórnarskipunarlaga ásamt skýringum. Reykjavík: Stjórnlagaráð, 2011. (Sótt 3.11.2020).
Endurskoðun stjórnarskrár Íslands: niðurstöður umræðufundar 2019.Viðauki, tafla 127, bls. 33. (Sótt 3.11.2020).
Sjá frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 151. löggjafarþing 2020–2021. (Sótt 3.11.2020).
Mynd:
- Una mirada cosmopolita para el proceso constituyente chileno | IberICONnect. (Sótt 3.11.2020).
Af hverju er ekki skráð í stjórnarskrá Íslands að íslenska sé opinbert tungumál landsins?
Einfaldasta skýringin á þessu er að Alþingi, og væntanlega einnig almenningi, hefur ekki þótt nægilega rík ástæða til þess að binda það í stjórnarskrá að íslenska sé opinbert tungumál lýðveldisins.Þetta kann að vera að breytast, til að mynda með tilkomu Internetsins, nýrri máltækni í stafrænum heimi og auknum áhrifum ensku á íslenskt mál. Forsætisráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um stjórnarskrárákvæði um íslenska tungu í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir:
[Í]slenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda. Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda.
Í rökstuðningi með frumvarpinu er vakin athygli á að á þessari öld hafa komið fram tillögur í þessa átt frá Íslenskri málnefnd og Félagi heyrnarlausra sem lagði til að íslenskt táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga.
Ekki verður reynt að leggja mat á það hér hvort að slík ákvæði ættu að vera í stjórnarskránni, en ýmis dæmi eru um að ríki hafi sambærileg ákvæði í stjórnarskrám sínum. Má þar til að mynda nefna til að mynda Danmörk og Spán. Finnar hafa auk ákvæða um opinber tungumál landsins, finnsku og sænsku, ákvæði um táknmál í sinni stjórnarskrá. Þó umræðan um þessi mál hafi ef til vill ekki verið sérlega áberandi síðustu árin má nefna að á þjóðfundi um stjórnarskrá Íslands, sem haldinn var árið 2010, birtist sterkur vilji í þá átt að efla og verja íslenska tungu. Í aðfararorðum frumvarps Stjórnlagaráðs var íslensk tunga nefnd á meðal nokkurra menningarverðmæta og sameiginlegra gilda þjóðarinnar.
Er þjóðin stjórnarskrárgjafinn?
Hér er líka að finna svar við spurningunni:
Hver er munurinn er á því að setja stjórnlög og önnur lög?
Stutta svarið við spurningunni er einfaldlega já. Og þjóðin er í sama skilningi löggjafi. Þar sem í lýðræðisríki er valdið hjá almenningi eða þjóðinni, og þingmenn sækja umboð sitt til kjósenda, er mikilvægt að ákvarðanir og stefna meirihluta þingmanna endurspegli líka viðhorf kjósenda. Á milli kosninga fer Alþingi hinsvegar með löggjafarvaldið í umboði almennings og stundum gerist það að þingið fer tímabundið á svig við vilja almennings því það kemur fyrir að stjórnmálamenn telja sig knúna til að samþykkja lög sem meirihluti kjósenda styður ekki. Fyrir því geta verið góðar ástæður (þótt svo sé ekki alltaf): Þingmenn eiga að taka sameiginleg gæði fram yfir önnur gæði. Vald þeirra veitir þeim hlutverk og ábyrgð sem getur birst í að bjarga samfélaginu frá ákvörðunum teknum í skyndi eða vegna múgæsinga sem geta haft hörmulegar afleiðingar.Þegar sagt er að þjóðin – eða almenningur – sé stjórnarskrárgjafi er yfirleitt átt við að löggjafinn eigi ekki að geta tekið ákvarðanir um innihald stjórnarskrár án skýrrar heimildar til þess frá almenningi. Slíka heimild er hægt að fá með ýmsu móti. Ein leiðin er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar, önnur að krefjast aukins meirihluta á þingi en þá er gert ráð fyrir því að samstaða meðal þorra þingmanna, sé líkleg til að endurspegla líka meirihlutavilja í samfélaginu. Íslenska leiðin er að láta þingið samþykkja stjórnarskrárbreytingar tvisvar með kosningum á milli.
En spurningin um stjórnarskrárgjafann ristir þó enn dýpra þegar betur er að gáð og varðar einmitt samspil almennings og kjörinna fulltrúa. Ef hugmyndin er sú að um stjórnarskrárbreytingar þurfi að vera víðtæk samstaða í samfélaginu nægir ekki að horfa til einnar þjóðaratkvæðagreiðslu eða samþykktar á þingi. Víðtæk samstaða þarf að ná til þversniðs samfélagsins en hún þarf líka að vera varanleg. Tveggja þinga leiðin hefur þann styrkleika að hún teygir úr ákvörðun yfir nokkurra vikna eða mánaða tímabil sem gefur bæði almenningi og kjörnum fulltrúum gott tækifæri til að rökræða og hugleiða breytinguna. Hún er því óbein leið til að stuðla að því að almenningur taki þátt í breytingunni.En mörgum finnst óbein aðild engan veginn nóg. Benda má á að enn meiri hlutdeild almennings skapist við að hinn almenni borgari fá sem mest tækifæri til að koma beint að stefnumótandi umræðum um stjórnarskrárbreytingar, taka þátt í að móta þær, fremur en að leggja lóð sitt einvörðungu á vogarskálarnar í atkvæðagreiðslu til að veita stjórnarskrárbreytingum sem lagðar eru fram af þingmönnum brautargengi eða stöðva þær.
Stjórnlagaráð sem samdi drög að nýrri stjórnarskrá 2011 opnaði ritunarferlið fyrir almenningi með því að birta reglulega þau drög sem ráðið vann með og gefa fólki kost á að ræða þau og einstök atriði þeirra á félagsmiðlum eða í beinum samskiptum við þá sem sátu í ráðinu.
Í þeirri endurskoðun á stjórnarskránni sem unnið hefur verið að á þessu kjörtímabili hefur samráð við almenning farið fram með rökræðukönnun sem fól annars vegar í sér stóra viðhorfskönnun til nokkurra atriða í stjórnarskránni, hins vegar rökræðufund þar sem 230 einstaklingar sem höfðu áður tekið þátt í viðhorfskönnuninni rökræddu sömu atriði og svöruðu að því loknu nýrri könnun um viðhorf til fyrirhugaðra stjórnarskrárbreytinga.
Áherslan á þjóðina sem stjórnarskrárgjafa hefur hún öðlast aukið vægi vegna samráðs Stjórnlagaráðs við almenning og vaxandi áhuga á almenningssamráði á undanförnum árum. Það er því erfitt að sjá fyrir sér nú að nokkrum dytti í hug að breyta stjórnarskránni án þátttöku almennings við mótun tillagna. Að þessu leyti hefur viðhorf til stjórnarskrárbreytinga – ekki bara á Íslandi heldur um allan heim – breyst á stuttum tíma.
Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar FInnbogason
Myndir:
- 11. maí – Rissessan við goshver í miðborg Reykjavíkur | Flickr. (Sótt 18.11.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0
- Stjórnlagaráð | Reykjavík – Stjórnlagaráð annar fundur og ko… | Flickr. (Sótt 18.11.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0
Hversu erfitt þarf að vera að breyta stjórnarskránni?
Segja má að meginhlutverk stjórnarskrár í lýðræðisríkjum sé af tvennum toga. Annarsvegar að stjórnarskráin sé traustur og öruggur rammi utan um stjórnskipulag, stjórnmál og löggjöf og hinsvegar að tryggja grundvallarréttindi sem talin eru undirstaða borgaralegs lýðræðissamfélags og þrískiptingar ríkisvaldsins. Stjórnarskrár eiga einnig að sporna gegn mögulegu ofríki meirihlutans svo að frelsi og borgararéttindum sé ekki rutt skyndilega úr vegi með einfaldri meirihlutaákvörðun, með sama hætti og almennum lögum er breytt. Þess vegna er talað um að stjórnarskrár þurfi að vera tregbreytanlegar.Þessum markmiðum má hinsvegar ná með ólíkum hætti. Í sumum ríkjum þurfa tvö þing með kosningum á milli að samþykkja breytinguna, eins og til að mynda á Íslandi eða í Svíþjóð, þar sem dugar einfaldur meirihluti í hvort skipti. Í Svíþjóð gerir stjórnarskráin þó einnig ráð fyrir að þingið – Riksdagen – geti ákveðið að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingu sem það hefur samþykkt. Niðurstaðan er bindandi ef meirihluti kjósenda hafnar tillögunni en er annars ráðgefandi.[1] Sumstaðar þarf aukinn meirihluta í annarri atkvæðagreiðslunni eða jafnvel báðum eins og til dæmis í Litháen.[2]
Önnur algeng leið er sú að einfaldur eða aukinn þingmeirihluti samþykki fyrst breytingartillögu sem kjósendur þurfa að staðfesta í þjóðaratkvæðagreiðslu til að hún taki gildi. Einnig eru dæmi um að sumum greinum í stjórnarskrá sé auðveldara að breyta en öðrum, en þá eru venjulega undanskildar greinar sem varða grundvallarmannréttindi og stjórnskipanina sjálfa. Þá er í sumum stjórnarskrám — svo sem stjórnarskrám Eistlands og Litháens — að finna ákvæði sem taka fyrir allar breytingar á stjórnarskránni í stríðsástandi eða þegar lýst hefur verið yfir neyðarástandi.[3]
Í sumum stjórnarskrám — svo sem stjórnarskrám Eistlands og Litháens — er að finna ákvæði sem taka fyrir allar breytingar á stjórnarskránni í stríðsástandi eða þegar lýst hefur verið yfir neyðarástandi. Myndin sýnir hermenn að marsera í Eistlandi 2018.Vegna sögulegra tengsla íslensku og dönsku stjórnarskránna er áhugavert að reglur um stjórnarskrárbreytingar eru mun þrengri í Danmörku en hér á landi. Þar þarf hvorttveggja: tvö þing með kosningum á milli og þjóðaratkvæði með að minnsta kosti 40% þátttöku, auk staðfestingar drottningar til þess að ná fram breytingu á stjórnarskránni.[4] Í stuttu máli má því segja að stjórnarskráin þurfi að vera nægilega sveigjanleg til þess að hægt sé að breyta henni þegar ástæða er til og góð samstaða um breytinguna, en nógu tregbreytanleg til þess að ekki sé hægt að gera breytingar á henni sem orka tvímælis, til dæmis vegna þess að með þeim sé sneitt að réttindum borgaranna eða valdheimildir ríkisins rýmkaðar verulega.Samanburður á stjórnarskrám er annars heil fræðigrein. Benda má á vefina constitutionnet.org og constituteproject.org þar sem finna má texta flestra gildandi stjórnarskráa í heiminum í enskri þýðingu og leiðir til að bera saman einstök atriði þeirra.
Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar Finnbogason.
Greinin birtist einnig á Vísindavefnum
Tilvísanir:
- ^ Riksdagsförvaltningen, The Constitution. (Sótt 9.11.2020).
- ^ Constitute, ‘Lithuania 1992 (Rev. 2019)’, Constitute, 2019. (Sótt 9.11.2020)
- ^ Constitute, ‘Compare Constitutions’, Constitute. (Sótt 9.11.2020).
- ^ Constitute, ‘Denmark 1953’, Constitute. (Sótt 9.11.2020).
Mynd:
- File:Estonian Guard Battalion on parade-902227.jpeg – Wikimedia Commons. (Sótt 9.11.2020).
Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð er í samstarfi við Vísindavefinn um að svara spurningum um stjórnarskránna og stjórnarskrárbreytingar – hægt er að senda spurningarnar til Vísindavefsins (visindavefur@hi.is) eða beint til Rannsóknaverkefnisins (stjornarskra@hi.is).
Hefur einhver breyting verið gerð á stjórnarskránni frá hruni?
Já, ein breyting hefur verið gerð en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi. Vorið 2013 – eftir að þáverandi stjórnarmeirihluti féll frá því að láta reyna á að koma stjórnarskrárfrumvarpi byggðu á frumvarpi Stjórnlagaráðs í gegnum þingið – náðist samkomulag um þá breytingu á stjórnarskránni að næsta kjörtímabil á eftir félli reglan um samþykki tveggja þinga úr gildi. Þess í stað hefði verið hægt að samþykkja breytingu á stjórnarskrá (eða setja nýja stjórnarskrá) með þeim hætti að fyrst samþykkti aukinn meirihluti þings breytingarnar (⅔ hlutar þingmanna) og því næst kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem að minnsta kosti 40% þeirra sem atkvæðisrétt hafa samþykktu þær líka.[1] Frumvarp, byggt á drögum Stjórnlagaráðs, var lagt fram á Alþingi 16. nóvember 2012. Frumvarpið var rætt í þingsal og um það fjallað í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það náði hins vegar aldrei lengra en í aðra umræðu (Alþingi greiðir venjulega atkvæði um frumvörp að lokinni þriðju umræðu).[2] 6. mars náðist samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um að gera þá tímabundnu breytingu á ákvæði um stjórnarskrárbreytingar sem lýst er hér að ofan. Ástæða þess að aldrei var látið reyna á stuðning þingmanna við frumvarpið var annars vegar efasemdir meðal leiðtoga stjórnarflokkanna um að frumvarpið hefði meirihlutastuðning. Eins virtist stjórnarandstaðan hafa í hyggju að beita málþófi til að tefja málið og koma í veg fyrir afgreiðslu þess. Með þessu sögðust leiðtogar stjórnarflokkanna – sem lögðu frumvarpið fram ásamt formanni á Bjartrar framtíðar – freista þess að halda lífi í frumvarpinu, og ná sem víðtækastri sátt um stjórnarskrárbreytingar.[3]
Ein breyting hefur verið gerð á stjórnarskránni frá hruni en hún var tímabundin og er nú fallin úr gildi.Þar sem nýr stjórnarmeirhluti sem tók við vorið 2013 studdi ekki frumvarp byggt á drögum Stjórnlagaráðs kom ekki til þess að það væri lagt fram aftur á því kjörtímabili. Þess í stað skipaði forsætisráðherra nefnd sem átti að fjalla um mögulegar stjórnarskrárbreytingar.[4] Nefndin skilaði tillögum um þrjár breytingar á stjórnarskránni: Ákvæði um vernd og varðveislu náttúrunnar, ákvæði um þjóðareign á auðlindum og loks ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hefði heimilað að almenningur gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ný lög.Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi forsætisráðherra, lagði fram frumvarp á sumarþingi 2016 þar sem lagt var til að þremur ákvæðum sem samsvöruðu þessum tillögum yrði bætt við stjórnarskrána, en frumvarpið var ekki samþykkt.[5] Loks má geta þess að frumvarp Stjórnlagaráðs hefur þrisvar verið lagt fram á Alþingi eftir að tímabundið breytingaákvæði féll úr gildi. Þingmenn Pírata lögðu frumvarpið fram í janúar 2019 og aftur um haustið – þá með þingmönnum Samfylkingar. Í bæði skiptin fór frumvarpið í gegnum fyrstu umræðu og var sent til meðferðar Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en fékk ekki frekari umfjöllun þings. Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins hafa aftur lagt frumvarpið fram á yfirstandandi þingi (2020-2021).[6]
Höfundar: Jón Ólafsson og Sævar Finnbogason. Svarið birtist einnig á Vísindavefnum
Tilvísanir:
- ^ Lög nr. 91 11. júlí 2013. (Sótt 3.11.2020).
- ^ Frumvarp til stjórnskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
- ^ Sjá greinargerð með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, 141. löggjafarþing 2012–2013. (Sótt 3.11.2020).
- ^ Sjá „Stjórnarskrárnefnd 2013-2017“ á vef forsætisráðuneytisins. (Sótt 3.11.2020).
- ^ Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 145. löggjafarþing 2015–2016. (Sótt 3.11.2020).
- ^ Sjá frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 149. löggjafarþing 2018–2019. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 150. löggjafarþing 2019–2020. (Sótt 3.11.2020); Frumvarp til stjórnarskipunarlaga, 151. löggjafarþing 2020–2021. (Sótt 3.11.2020).
Mynd:
- File:Alþingi 2012-07.JPG – Wikimedia Commons. (Sótt 3.11.2020). Myndina tók Zinneke og hún er birt undir leyfinu Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0 Unported license.
Hvers vegna er stundum sagt að núgildandi stjórnarskrá sé „bútasaumur“?
Þetta orð lýsir því einkenni stjórnarskrárinnar okkar að hún á rætur að rekja til ólíkra tíma og hefur verið endurnýjuð að hluta oftar en einu sinni. Eins hefur henni verið líkt við „stagbætta flík“. En bútasaumur er ekki nauðsynlega neikvætt hugtak eins og allir sem eiga falleg bútasaumsteppi vita. En það þótti ekki fínt hinsvegar að ganga í stagbættum fötum hér áður fyrr.Bútasaumur íslensku stjórnarskrárinnar birtist í því að núgildandi stjórnarskrá er að upplagi lýðveldisstjórnarskráin frá árinu 1944. En sjálf byggði hún að stórum hluta á stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands sem tók gildi árið 1920. Sú stjórnarskrá var nátengd stjórnarskrá Danmerkur frá 1848 og sömuleiðis stjórnarskrá Íslands frá 1874. Allar þessar stjórnarskrár gengu í gegnum breytingar á gildistíma sínum og því endurspeglar núgildandi stjórnarskrá Íslands ýmsar aðstæður og stjórnarform fyrri tíma með orðalagi sínu, og túlkun á henni verður að taka mið af þessari sögu hennar.
Bútasaumur er ekki nauðsynlega neikvætt hugtak eins og allir sem eiga falleg bútasaumsteppi vita. Margir telja að vegna þessa Íslendingar þurfi að fá stjórnarskrá sem samin er frá grunni fyrir íslensk samfélag. Iðulega er bent á að þetta hafi raunar alltaf staðið til. Við lýðveldisstofnun hafi jafnvel verið gert ráð fyrir að eitt fyrsta verkefni nýs lýðveldis væri að setja sjálfu sér nýja stjórnarskrá.
Til stuðnings þessari skoðun er gjarnan bent á þær greinar stjórnarskrárinnar sem fjalla um embætti forseta Íslands og framkvæmdavaldið í landinu séu ekki aðeins gamaldags heldur kolúreltar. Þar sé að finna setningar sem hafi merkingu þveröfuga þeirri sem skynsamur lesandi myndi ætla við fyrstu sýn. Sömuleiðis hefur verið bent á að stjórnarskrána skorti ákvæði sem stýra alþjóðasamvinnu með þeim hætti sem nauðsynlegt er í sjálfstæðu nútímaríki. Loks skortir ákvæði um auðlindir, náttúru, lýðræði og fleiri þætti nútímalífshátta sem almennt samkomulag þarf að vera um, lögfest með viðeigandi stjórnarskrárákvæðum.
En það er vissulega ekki óumdeild skoðun að brýnt sé að breyta stjórnarskránni. Þeir sem vilja fara sér hægar benda á að stjórnarskrár þurfi fyrst og fremst að innihalda ákvæði um þau grundvallarréttindi og grundvallarviðmið sem stjórnskipunin byggist á og erfitt sé að hagga. Þetta geri íslenska stjórnarskráin prýðilega, enda hafi margvísleg áföll ekki skapað neinar stjórnarkrísur. Stjórnarskráin segi nægilega vel til um hvernig haga skuli stjórn landsins til þess að stjórnkerfið geti brugðist við miklum erfiðleikum á borð við fjármálakreppur og farsóttir. Stjórnarskrár í lýðræðisríkjum séu og eigi að vera tregbreytanlegar og í því ljósi sé það fremur kostur en galli að stjórnarskráin byggi á gömlum grunni sem hafi þróast og þroskast á löngum tíma.
Höfundar: Jón Ólafsson, Sævar Finnbogason og ritstjórn Vísindavefsins
Mynd: LB patchwork blanket WIP | My second attempt at quilt-making… | Flickr. (Sótt 30.10.2020). Myndina tók Audrey og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0.
Samstarf um stjórnarskrána
Rannsóknaverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrágerð og Vísindavefurinn hafa stofnað til samstarfs um stjórnarskrármál. Nýlega skiluðu forystukonur Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá undirskriftum 43.423 íslenskra borgara þar sem þess er krafist að Alþingi „virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána“ –þar sem „Nýja stjórnarskráin“ vísar til frumvarps Stjórnlagaráðs frá 2011, sem dagaði uppi í meðförum Alþingis í mars 2013. Á þessu kjörtímabili hefur forsætisráðherra hins vegar haft forystu um tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem formenn allra flokka á þingi hafa fjallað um á reglulegum fundum. Hluti þeirra atriða stjórnarskrárinnar sem ætlunin er að breyta á þessu kjörtímabili hafa einnig verið rædd í umfangsmiklu almenningssamráði sem forsætisráðuneytið stóð fyrir árið 2019, en Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist umsjón þess og Rannsóknaverkefnið veitti ráðgjöf.
Vegna þess hve margir boltar eru á lofti í stjórnarskrármálum þessar vikurnar og svo verður líklega fram á vor, vitum við að marga fýsir að vita meira um einstaka þætti núgildandi stjórnarskrár og frumvarp Stjórnlagaráðs. Saga íslensku stjórnarskrárinnar er orðin nokkuð löng og ekki alveg einföld og jafnvel fólk sem hefur staðgóða þekkingu á stjórnarskránni áttar sig oft á því að það eru gloppur í þekkingunni. Allir eru betur settir ef greiður aðgangur er að skýrum svörum við algengum spurningum um stjórnarskrána og sögu hennar.
Við ætlum því að leitast við að svara þeim spurningum sem til okkar berast – annaðhvort til Vísindavefsins (visindavefur@hi.is) eða beint til Rannsóknaverkefnisins (stjornarskra@hi.is).
Tilgangurinn er að hjálpa fólki til að skilja og átta sig á þeim spurningum sem nú er fjallað um á félagsmiðlum, í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna og því hvetjum við alla til að senda okkur spurningar sem upp kunna að koma um stjórnarskrána eða málefni tengd henni. Við munum gera okkar besta til að gefa stutt en innihaldsrík svör. En við erum ekki fullkomin heldur: Við hvetjum líka þá sem sjá annmarka á svörum okkar að láta okkur vita af því svo við getum lagað það sem úrskeiðis kann að fara.
Sjá frétt á vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80423
Hér má lesa fyrsta svarið á Vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80418