Einfaldasta skýringin á þessu er að Alþingi, og væntanlega einnig almenningi, hefur ekki þótt nægilega rík ástæða til þess að binda það í stjórnarskrá að íslenska sé opinbert tungumál lýðveldisins.Þetta kann að vera að breytast, til að mynda með tilkomu Internetsins, nýrri máltækni í stafrænum heimi og auknum áhrifum ensku á íslenskt mál. Forsætisráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um stjórnarskrárákvæði um íslenska tungu í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir:
[Í]slenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda. Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda.
Í rökstuðningi með frumvarpinu er vakin athygli á að á þessari öld hafa komið fram tillögur í þessa átt frá Íslenskri málnefnd og Félagi heyrnarlausra sem lagði til að íslenskt táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga.
Ekki verður reynt að leggja mat á það hér hvort að slík ákvæði ættu að vera í stjórnarskránni, en ýmis dæmi eru um að ríki hafi sambærileg ákvæði í stjórnarskrám sínum. Má þar til að mynda nefna til að mynda Danmörk og Spán. Finnar hafa auk ákvæða um opinber tungumál landsins, finnsku og sænsku, ákvæði um táknmál í sinni stjórnarskrá. Þó umræðan um þessi mál hafi ef til vill ekki verið sérlega áberandi síðustu árin má nefna að á þjóðfundi um stjórnarskrá Íslands, sem haldinn var árið 2010, birtist sterkur vilji í þá átt að efla og verja íslenska tungu. Í aðfararorðum frumvarps Stjórnlagaráðs var íslensk tunga nefnd á meðal nokkurra menningarverðmæta og sameiginlegra gilda þjóðarinnar.