Home » Fréttir » Samstarf um stjórnarskrána

Samstarf um stjórnarskrána

Rannsóknaverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrágerð og Vísindavefurinn hafa stofnað til samstarfs um stjórnarskrármál. Nýlega skiluðu forystukonur Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá undirskriftum 43.423 íslenskra borgara þar sem þess er krafist að Alþingi „virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána“ –þar sem „Nýja stjórnarskráin“ vísar til frumvarps Stjórnlagaráðs frá 2011, sem dagaði uppi í meðförum Alþingis í mars 2013. Á þessu kjörtímabili hefur forsætisráðherra hins vegar haft forystu um tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem formenn allra flokka á þingi hafa fjallað um á reglulegum fundum. Hluti þeirra atriða stjórnarskrárinnar sem ætlunin er að breyta á þessu kjörtímabili hafa einnig verið rædd í umfangsmiklu almenningssamráði sem forsætisráðuneytið stóð fyrir árið 2019, en Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist umsjón þess og Rannsóknaverkefnið veitti ráðgjöf.

Vegna þess hve margir boltar eru á lofti í stjórnarskrármálum þessar vikurnar og svo verður líklega fram á vor, vitum við að marga fýsir að vita meira um einstaka þætti núgildandi stjórnarskrár og frumvarp Stjórnlagaráðs. Saga íslensku stjórnarskrárinnar er orðin nokkuð löng og ekki alveg einföld og jafnvel fólk sem hefur staðgóða þekkingu á stjórnarskránni áttar sig oft á því að það eru gloppur í þekkingunni. Allir eru betur settir ef greiður aðgangur er að skýrum svörum við algengum spurningum um stjórnarskrána og sögu hennar.

Við ætlum því að leitast við að svara þeim spurningum sem til okkar berast – annaðhvort til Vísindavefsins (visindavefur@hi.is) eða beint til Rannsóknaverkefnisins (stjornarskra@hi.is). 

Tilgangurinn er að hjálpa fólki til að skilja og átta sig á þeim spurningum sem nú er fjallað um á félagsmiðlum, í fjölmiðlum og á vettvangi stjórnmálanna og því hvetjum við alla til að senda okkur spurningar sem upp kunna að koma um stjórnarskrána eða málefni tengd henni. Við munum gera okkar besta til að gefa stutt en innihaldsrík svör. En við erum ekki fullkomin heldur: Við hvetjum líka þá sem sjá annmarka á svörum okkar að láta okkur vita af því svo við getum lagað það sem úrskeiðis kann að fara.

Sjá frétt á vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80423

Hér má lesa fyrsta svarið á Vísindavefnum: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=80418


Leave a comment

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum