Aðdragandi

Mynd af vefsíðu gagnabankans og ráðstefnuvefsins Hrunið, þið munið sem inniheldur ýmis konar fróðleik um efnahagshrunið 2008

Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 urðu kröfur um að umbætur í íslenskum stjórnmálum háværar. Kallað var eftir ríkum breytingum, þar á meðal auknu gagnsæi. Hluti af þessum kröfum var heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem raunar hafði verið rætt um síðan Danir afhentu hana Íslendingum árið 1944. Þegar lýðveldið Ísland var stofnað var ákveðið að gera ekki aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær sem voru taldar allra nauðsynlegastar vegna sambandsslitanna við Dani, en síðar átti að fara fram heildarendurskoðun. Því er hægt að segja að stjórnarskránni hafi í raun alltaf ætlað að vera til bráðabirgða

Segja má að núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins beri þess merki að hafa orðið til í dönsku konungsríki, en til dæmis voru margar af þeim greinum sem höfðu fjallað um stöðu konungs yfirfærðar á embætti forseta. Því hefur endurtekið komið upp sú umræða að stjórnarskráin sé úrelt – bæði efnislega og hvað varðar orðalag – og að löngu tímabært sé að ráðast í heildarendurskoðun, sérstaklega þar sem miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi frá árinu 1944. Stjórnarskránni hefur nokkrum sinnum verið breytt í gegnum árin, til dæmis þegar mannréttindakaflinn var endurskoðaður árið 1995. Í gegnum árin hafa margar tilraunir hafa verið gerðar til heildstæðra breytinga, en að mestu leyti ekki borið árangur sem erfiði.

Árin í kjölfar efnahagskreppunnar einkenndust af miklu andófi og mótmælum almennings – svokallaðri Búsáhaldabyltingu. Margar grasrótarhreyfingar spruttu upp í Búsáhaldabyltinguna, þar á meðal Mauraþúfan, sem var skipulögð í kringum áhuga á endurskoðun stjórnarskrárinnar. Mauraþúfan skipulagði Þjóðfundinn 2009, en þar ræddu 1200 slembivaldir þátttakandur þær væntingar sem þeir hefðu til stjórnarskrárinnar, áherslur um stjórnskipan landsins og breytingar á henni.

Segja má að endurskoðunarferlið hafi síðan formlega hafist í júní 2010 þegar Alþingi samþykkti frumvarp um stjórnlagaþing. Þann 6. nóvember sama ár var efnt til þjóðfundar, þar sem næstum 1000 slembivaldir einstaklingar ræddu helstu gildi og áhersluatriði nýrrar stjórnarskrár. Niðurstöður fundarins áttu að nýtast í vinnu stjórnlagaþings.

Kosningar til stjórnlagaþings, sem voru haldnar 27. nóvember 2010, voru úrskurðaðar ógildar af Hæstarétti vegna tæknilegra ágalla á framkvæmd þeirra. Alþingi skipaði þá Stjórnlagaráð í mars 2011, þar sem kjörnum fulltrúum Stjórnlagaþings var boðið sæti. Alls 25 manns tóku sæti í ráðinu og hófu vinnu við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem lagði áherslu á almenningssamráð og opið og gagnsætt ferli. Hægt er að lesa meira um atburðarrásina í undirdálkum þessarar síðu.

Frekari lestur:

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum