Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands er gert ráð fyrir að Stjórnarskrá Íslands verði breytt á þessu kjörtímabili og því næsta. Í ljósi þess að stjórnvöld hafa lýst skýrum vilja til þess að leita eftir sjónarmiðum almennings hefur rannsóknarverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð boðið þekkingu og krafta sína til þess að það samráð sem áætlað er geti orðið skilvirkt og uppbyggilegt. Eins og fram kemur á vef Stjórnarráðsins er gert ráð fyrir að núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili og vinnunni verði áfangaskipt.
Mikil vinna hefur verið lögð í endurskoðun stjórnarskránnar á undanförnum árum, sbr. t.d. þjóðfund, Stjórnlaganefnd og Stjórnlagaráð auk starfa stjórnarskrárnefnda 2005-2007 og 2013-2016, ásamt þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað.
Verkáætlun stjórnvalda er í grófum dráttum þessi:
- Á tímabilinu 2018-2021 verða tekin fyrir eftirfarandi viðfangsefni: Þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, II. kafli stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni verði breytt.
- Á tímabilinu 2021-2025 verða tekin fyrir: Kaflar stjórnarskrár um Alþingi, m.a. um fjárstjórnarvald þess, Alþingiskosningar og dómstóla, þ.e. III. IV. og V. kafli, ákvæði um þjóðkirkjuna, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, og inngangsákvæði, þ.e. I. VI. og VII. kafli og önnur efni sem ekki hafa þegar verið nefnd.
Á þessari síðu á vef Stjórnarráðsins er að finna upplýsingar um áætlanir stjórnvalda auk samantektar sem Forsætisráðuneytið lét gera í upphafi þessarar vinnu um stöðu þeirra mála sem á að taka fyrir á tímabilinu 2018 til 2021