Þátttakendur á rökræðufundinum ræddu nokkrar tillögur í tengslum við alþjóðlegt samstarf og framsal valdheimilda. Niðurstöður skoðanakannana sem þátttakendur tóku í byrjun og lok rökræðufundarins voru eftirfarandi:
- Gera þarf breytingar á stjórnarskrá Íslands til að stjórnvöld geti gengist undir skuldbindingar sem alþjóðasamstarf kann að krefjast: 45% fyrir fund, 66% eftir fund
- Ekki er þörf á breytingum á stjórnarskrá Íslands til að greiða fyrir alþjóðlegu samstarfi: 32% bæði fyrir og eftir fund
- Eitt mikilvægasta hutverk stjórnarskrárinnar er að verja fullveldi landsins: 87% fyrir fund, 81% eftir fund
- Mikilvægt er að ákvarðanir um framkvæmd alþjóðasamninga lúti fyrirframgefnum og skýrum reglum sem eru óháðar pólitískum ágreiningi: 83% fyrir fund, 92% eftir fund
- Mikilvægt er að stjórnarskráin veiti Alþingi óumdeilda heimild til að taka ákvarðanir er varða hagsmuni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi: 60% fyrir og eftir fund
Ísland og alþjóðasamstarf
Ísland tekur þátt í margvíslegu alþjóðasamstarfi, en til dæmis má nefna EES, EFTA og NATO. Þegar ríki verða aðilar að alþjóðastofnunum- eða samningum samþykkja þau að bindandi ákvarðanir séu teknar fyrir þeirra hönd, og skuldbinda sig á sama tíma til þess að fylgja vissum reglum og skyldum. Í öðrum orðum framselja þau ákveðið vald út fyrir landamærin. Sumir telja að slíkt sé ekki í samræmi við núgildandi stjórnarskrá. Þar sem alþjóðasamstarf þarf að byggja á ótvíræðum heimildum í stjórnarskrá gæti því þótt þörf á endurskoðun og breytingum. Sumir hafa einnig kallað eftir því að náið alþjóðlegt samstarf – til dæmis aðild að ESB – þurfi að vera samþykkt af almenningi í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Alþjóðasamvinna er flókið viðfangsefni
Í umræðunum var algengt að þátttakendum fannst þeir ekki búa yfir nægilegri þekkingu um viðfangsefnið, en flestir töldu það þó vera afar mikilvægt. Margir voru ekki vissir um hvað stæði um alþjóðasamstarf og framsal valdheimilda í núgildandi stjórnarskrá, og veltu því fyrir sér hvort nú þegar hefði verið farið fram úr heimildum hennar. Margir þátttakendur töluðu um jákvæðar hliðar alþjóðasamstarfs og kosti þess fyrir Ísland, sérstaklega í samhengi smæðar landsins. Þó höfðu margir orð á því að mikilvægt væri að alþjóðasamstarf skerti ekki fullveldi Íslands. Flestir köllluðu eftir skýrari ákvæðum í stjórnarskrá um framsal valdheimilda; það þyrfti að vera skýrt hvers konar völd væri hægt að framselja og í hvaða tilgangi. Einn þátttakandi sagði að þar sem miklar breytingar hefðu orðið á alþjóðasamstarfi á síðustu áratugum væri ekki óeðlilegt að það þyrfti að endurskoða og skýra ákvæði stjórnarskrárinnar hvað þetta varðaði.
Stungið upp á þjóðaratkvæði sem öryggisventli
Margir þátttakendur ræddu náttúruauðlindir og lögðu áherslu á að stjórnmálamenn ættu hvorki að fá að selja þær úr landi né gera óafturkræfa samninga um nýtingu þeirra. Sumir minntust á að deilurnar um „þriðja orkupakkann“ hefðu verið einfaldari ef ákvæði stjórnarskrárinnar væru skýrari. Einnig var mikið rætt um þjóðaröryggi og stríðsbandalög. Margir rifjuðu upp stuðningsyfirýsingu tveggja fyrrum ráðherra við innrás Bandaríkjanna í Írak árið 2003 og töldu að hún hefði verið gefin með ólögmætum hætti. Þátttakendur töldu þetta vera dæmi um mikilvægi þess að stjórnmálamenn ættu ekki að fá að taka afdrifaríkar ákvarðanir upp á sitt einsdæmi. Margir höfðu áhyggjur af því að óskýrleiki í stjórnarskrá gæti verið misnotaður af stjórnmálamönnum. Nokkuð margir voru á þeirri skoðun að Alþingi ætti ekki að geta gengist undir nýja samninga án þjóðaratkvæðagreiðslu. Eitt sjónarmið var að eingöngu „stærri málum“ ætti að vera vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem eðlismunur væri á viðskiptasamningum og nánu samstarfi – eins og til dæmis aðild að ESB myndi fela í sér.