Home » Rökræðukönnun » Kjördæmaskipan, atkvæðavægi og persónukjör

Kjördæmaskipan, atkvæðavægi og persónukjör

Á umræðufundinum ræddu þátttakendur nokkrar tillögur í sambandi við kjördæmaskipan, atkvæðavægi og kosningakerfið. Þátttakendur voru beðnir um að taka afstöðu til þessara tillagna í skoðanakönnun bæði í byrjun fundarins og í lok hans. Tillögurnar og niðurstöðurnar voru eftirfarandi:

  • Kosningar til þings og sveitastjórna eiga áfram að miðast við flokkslista en þó leyfa persónukjör í auknum mæli: 65% fyrir fund, 80% efir fund
  • Kosningar til þings og sveitastjórna eiga að byggjast á persónukjöri: 55% fyrir fund, 43% eftir fund
  • Landið á að vera eitt kjördæmi: 40% fyrir fund, 45% eftir fund
  • Kjördæmaskipan á að vera eins og nú er: 26% fyrir fund, 36% eftir fund
  • Kjördæmi eiga að vera fleiri en nú eru: 18% fyrir fund, 19% eftir fund

Ólík en mikilvæg sjónarmið sem togast á í kjördæmamálinu

Ljóst var að mörgum þátttakendum þótti núverandi kjördæmakerfi vera flókið, ekki nógu gagnsætt og jafnvel úrelt. Margir minntust á að koma þyrfti í veg fyrir kjördæmapot og minnka flokkadrætti. Auk þess fannst mörgum misvægi atkvæða vera ranglæti sem þyrfti að leiðrétta hið snarasta, en eftir því sem leið á umræðurnar mátti greina aukna varfærni gagnvart stórum breytingum á kjördæmaskipan. Þátttakendur áttu almennt erfitt með að komast að skýrri niðustöðu og álitu að það til væru góð rök bæði með því og á móti því að breyta núverandi kerfi. Þátttakendur vildu ekki innleiða breytingar breytinganna vegna – mikilvægast væri að hvers konar breytingar myndu stuðla að sanngjarnara kerfi, en ekki gera kerfið ósanngjarnt á aðra vegu. Sumir gætu haldið að umræðurnar hefðu einkennst af snörpum orðaskiptum á milli þátttakenda frá landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu, en svo var ekki: áherslan var á að finna fyrirkomulag sem myndi tryggja að raddir fólks bæði af landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu myndu heyrast. Umræðurnar snerust almennt um að jafna atkvæðavægi og koma í veg fyrir mismunun annars vegar, og að vernda hagsmuni landsbyggðarinnar hins vegar. Flestir þátttakendur sammældust um mikilvægi beggja sjónarmiða.

Krafan um persónukjör

Þátttakendur ræddu einnig möguleikann á auknu persónukjöri í sveitastjórnar- og þingkosningum. Þátttakendur voru almennt áhugasamir um hugmyndina um persónukjör og vildu margir eiga möguleika á því að hafa meiri áhrif á framboðslista, til dæmis með því að geta kosið frambjóðendur þvert á lista. Gagnrýni í garð núverandi kerfis var oft byggð á því sem þátttakendur skynjuðu sem spillingu og skort á ábyrgð í íslenskum stjórnmálum. Sumir töldu að aukið persónukjör gæti stuðlað að minni flokkadráttum – og þar af leiðandi meiri samvinnu á Alþingi – og aukið traust almennings í garð stjórnmálamanna. Aðrir voru fullir efasemda og töldu að kosningar byggðar á persónukjöri gætu orðið vinsældakeppni þar sem þekktir einstaklingar myndu helst fá framgang. Nokkrir veltu fyrir sér hvort blandað kerfi væri mögulegt, þar sem einhver tegund persónukjörs myndi eiga sér stað meðfram núverandi kosningakerfi.

The DCD Podcast

Hlaðvarpið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð

Myndir frá rökræðufundinum